ÍR-ingar tryggðu sér annan vinning í Olísdeildar kvenna í handknattleik í dag með öruggum sigri á Stjörnunni, 32:26, í Hekluhöllinni í Garðabæ. ÍR færðist þar með upp að hlið KA/Þórs í efsta sæti Olísdeildar með tvo sigurleiki. Stjarnan er án stiga eftir tvo tapleiki í upphafsumferðunum.
ÍR var þremur mörkum yfir í hálfleik, 14:11, eftir að hafa brotið sig frá Stjörnunni með þremur mörkum í röð. Fram til þess tíma var viðureignin jöfn.
Í síðari hálfleik var ÍR skrefi á undan og ríflega það og vann svo sannarlega verðskuldaðan sigur.
Sara Dögg Hjaltadóttir átti annaðs stórleik í röð með liði ÍR. Hún fylgdi 12 marka leik sínum gegn Haukum fyrir viku með öðrum eins leik í dag. Sif Hallgrímsdóttir fór einnig á kostum í marki ÍR en hún kom til félagsins í sumar frá KA/Þór. Katrín Tinna Jensdóttir var að vanda traust í vörn sem sókn.
Eva Björk Davíðsdóttir mætti til leiks í dag með Stjörnunni en hennar var sárt saknað gegn KA/Þór fyrir viku. Eva Björk er óðum að ná sér á strik eftir aðgerð á hné í sumar. Hennar reynsla á vafalaust eftir að nýtast Stjörnuliðinu betur þegar líður á leiktíðina.
Mörk Stjörnunnar: Natasja Hammer 6, Vigdís Arna Hjartardóttir 6, Brynja Katrín Benediktsdóttir 4, Aníta Björk Valgeirsdóttir 3, Sara Katrín Gunnarsdóttir 2, Hanna Guðrún Hauksdóttir 2, Guðmunda Auður Guðjónsdóttir 2, Rakel Dórothea Ágústsdóttir 1.
Varin skot: Hrafnhildur Anna Þorleifsdóttir 6/1, 25% – Margrét Einarsdóttir 5, 27,8%.
Mörk ÍR: Sara Dögg Hjaltadóttir 12, Katrín Tinna Jensdóttir 6, Ásthildur Bertha Bjarkadóttir 4, Vaka Líf Kristinsdóttir 4, Hanna Karen Ólafsdóttir 3, Anna María Aðalsteinsdóttir 1, María Leifsdóttir 1.
Varin skot: Sif Hallgrímsdóttir 18/2, 40,9%.