Valur jafnaði metin í einvíginu við Stjörnuna í undanúrslitum Olísdeildar kvenna í handknattleik með eins marks sigri í hörkuleik í TM-höllinni í Garðabæ, 25:24. Sara Sif Helgadóttir, markvörður Vals, kom í veg fyrir að Helena Rut Örvarsdóttir jafnaði metin 11 sekúndum fyrir leikslok. Næsti leikur liðanna verður í Origohöll Valsara á miðvikudagskvöldið.
Valur var marki yfir í hálfleik, 14:13. Lengst af síðari hálfleiks var Valsliðið með yfirhöndina, tvö til þrjú mörk og virtist ætla að sigla sigri í hús nokkuð örugglega. Mistök gerðu vart við sig auk þess sem Darija Zecevic var vel með á nótunum. Stjarnan kom ítrekað nærri undir lokin og var ekki langt frá að jafna metin á síðustu sekúndum.
Tveir fyrstu leikir liðanna hafa verið hörkuskemmtilegir og vel leiknir. Sá fyrsti var framlengdur og í dag vantaði lítið upp á. Ofan á annað þá var aðsókn í TM-höllina í dag með betra móti sem jók enn á stemninguna. Vonandi verður framhald á.
Mörk Stjörnunnar: Helena Rut Örvarsdóttir 7, Britney Cots 4, Elísabet Gunnarsdóttir 4, Eva Björk Davíðsdóttir 3/2, Hanna Guðrún Stefánsdóttir 2, Stefanía Theodórsdóttir 2, Lena Margrét Valdimarsdóttir 2.
Varin skot: Darija Zecevic 8/1, 25,8%.
Mörk Vals: Þórey Anna Ásgeirsdóttir 6/2, Mariam Eradze 5, Thea Imani Sturludóttir 4, Elín Rósa Magnúsdóttir 3, Hildur Björnsdóttir 2, Sigríður Hauksdóttir 2, Lilja Ágústsdóttir 2, Ásdís Þóra Ágústsdóttir 1.
Varin skot: Sara Sif Helgadóttir 6, 25% – Hrafnhildur Anna Þorleifsdóttir 0.