- Auglýsing -
- Auglýsing -

Segir Moustafa sýna tennurnar

Hassan Moustafa forseti Alþjóða handknattleikssambandsins. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Ramon Gallego, sem árum saman hefur verið formaður dómaranefndar Alþjóða handknattleikssambandsins IHF, hefur sagt embætti sínu lausu og er hættur í stjórn IHF. Hann segir ástæðu þessa vera óeðlileg afskipti forseta IHF, hins 77 ára gamla Egypta Hassan Moustafa, af málefnum dómara. Eins hafi framkoma forsetans í sinn garð verið niðurlægjandi.

Með því skipta sér af dómaramálum á stórmótum og setja nýjar reglur sé forsetinn að sýna tennur og herða tök sína á IHF. Moustafa hefur lengi sótt stuðning frá smærri og vanþróaðri ríkjum.

Gallego segir að forsetinn vilji ekki að dómarar frá Norðurlöndunum dæmi leiki Norðurlandaþjóða, svo dæmi sé tekið. Þungt var í Moustafa eftir að norskir dómarar dæmdu viðureign Svía og Egypta á HM í Egyptalandi sem endaði með eins marks sigri Svía, 24:23. Tapið setti strik í reikning Egypta sem stefndu á að vinna heimsmeistaratitilinn á heimavelli í janúar.


Eins mun forsetinn vera afar óánægður með dómgæslu dansks dómarapars í leik Norðmanna og Rúmenía í forkeppni Ólympíuleikanna í kvennaflokki í mars sem honum þótti draga taum norska landsliðsins í leik sem það mátti ekki tapa með of miklum mun til þess að missa ekki af farseðlinum á leikana.


Gallego segir að ekkert í reglum IHF banni að dómarar dæmi leiki hjá grannþjóðum. Hann veltir ennfremur fyrir hvað taki við næst þegar búið verður að útiloka dómara frá Norðurlöndunum frá því að dæma leiki Norðurlandaþjóða.


„Framundan eru Ólympíuleikar og það er ólíðandi að forsetinn sé með puttana í því hverjir dæma leikina á leikunum,“ segir Gallego sem skrifað hefur opið bréf til Moustafa, stjórnar IHF og nokkurra fjölmiðla.

Gallego segir að hann og Moustafa hafi lengi greint á stefnu varðandi val á dómurum fyrir stórmót. Skoðun Gallego sé sú að bestu dómarar hverju sinni eigi að dæma á stórmótum, óháð því hvaðan þeir koma og þótt það þýði að fleiri en eitt par komi frá nokkrum ríkjum. Moustafa er á öndverðum meiði og vill fá dómara frá sem flestum löndum heims til þess að dæma leiki stórmóta, e.t.v. burt séð frá hvort þeir geti dæmt eða ekki.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -