Þýsku meistararnir HB Ludwigsburg standa höllum fæti þessa dagana eftir að rekstrarfélagið og handhafi keppnisleyfis félagsins óskað eftir gjalþrotaskiptum í gær eins og handbolti.is sagði m.a. frá. Í tilkynningu félagsins í morgun kemur fram að fjárhagsstaðan sé erfið en undirbúningur liðsins haldi áfram næstu daga meðan unnið sé að skjóta stoðum undir fjárhaginn.
HB Ludwigsburg hefur borið ægishjálm yfir önnur kvennalið í þýskum handknattleik síðustu árin og orðið þýskur meistari í undanfarin fjögur ár og unnið bikarkeppnina fjórum sinnum á síðustu fimm árum.
Í tilkynningu frá stjórn þýsku deildarkeppninnar segir að staða HB Ludwigsburg um þessar mundir hafi ekki áhrif á væntanlega þátttöku liðsins í deildarkeppninni. Hinsvegar kunni að koma til þess að allt að átta stig verði dregin af liðinu komi í ljós að félagið geti ekki staðið við skuldbindingar þær sem voru forsendur fyrir því að það fékk keppnisleyfi í sumar.
Áfall fyrir Meistaradeildina
Ekkert hefur heyrst frá Handknattleikssambandi Evrópu en HB Ludwigsburg er á meðal 16 þátttökuliða í Meistaradeild Evrópu sem hefst eftir sex vikur. Það væri mikið áfall fyrir keppnina ef annað árið í röð verði þátttökulið keppninnar gjaldþrota.
Eitt skilyrða fyrir þátttöku í Meistaradeildinni er að fjárhagur félags sé tryggur. Undanfarin ár er ljóst að lausatök hafa verið í eftirliti. Norska liðið Vipers lagði upp laupana í upphafi þessa árs á miðri leiktíð Meistaradeildar. Einnig virtist fjárhagur norska liðsins Kolstad ekki vera eins traustur sumarið 2023 og útlit var fyrir. Fyrir nokkrum árum þá söfnuðust upp skuldir hjá RK Vardar sem lauk með að EHF neitaði félaginu um þátttöku í Meistaradeild karla.