Selfoss fagnaði öðrum sigri sínum í Grill66-deild kvenna í kvöld þegar liðið vann 10 marka sigur á Fjölni/Fylki í upphafsleik annarrar umferðar deildarinnar, 27:17. Leikið var í Fylkishöllinni í Árbæ og voru gestirnir frá Selfossi með fjögurra marka forskot að loknum fyrri hálfleik, 13:9.
Roberta Strope, sem gekk til liðs við Selfoss í sumar, var allt í öllu í leik liðsins í kvöld. Hún skoraði 10 mörk og var einnig föst fyrir í vörninni. Ljóst er að koma hennar til liðsins er sannkallaður hvalreki.
Fjölnis/Fylkis-liðið átti á brattann að sækja að þessu sinni. Selfoss-liðið hefur náð vopnum sínum á ný eftir erfitt síðasta tímabil þar sem margir leikmenn liðsins voru meira og minna frá keppni vegna meiðsla.
Fjölnir/Fylkir er án stiga enn sem komið er. Liðið tapaði fyrir FH í fyrstu umferð á síðasta föstudag.
Mörk Fjölnis/Fylkis: Anna Karen Jónsdóttir 4, Katrín Erla Kjartansdóttir 3, Erla María Magnúsdóttir 3, Azra Cisic 2, Harpa Elín Haraldsdóttir 2, Kolbrún Anna Garðarsdóttir 1, Hrafnhildur Irma Jónsdóttir 1, Ade Kozicka 1.
Mörk Selfoss: Roberta Srope 10, Kristín Una Hólmarsdóttir 4, Tinna Sigurrós Traustadóttir 4, Emilía Ýr Kjartansdóttir 3, Tinna Soffía Traustadóttir 2, Elínborg Katla Þorbjörnsdóttir 2, Rakel Hlynsdóttir 1, Elína Krista Sigurðardóttir 1.