Selfoss stór stórt skref í átt til þess að tryggja sér sæti í úrslitakeppninni um Íslandsmeistaratitilinn með því að vinna öruggan sigur á KA, 35:29, í viðureign liðanna í 17. umferð Olísdeildar karla í handknattleik í KA-heimilinu.
Selfoss er fjórða til fimmta sæti deildarinnar með 19 stig eins og Afturelding þegar 17 leiki eru að baki. KA-menn eru hinsvegar í mestu basli í 10. sæti með 11 stig og verða heldur betur að bíta í skjaldarrendur á endasprettinum.
Selfossliðið mætti ákveðið til leiks í KA-heimilinu í dag. Það var sterkara allan fyrri hálfleikinn. Varnarleikur KA var slakur og gestirnir genfgu á lagið og voru með tveggja marka verðskuldað forskot þegar gengið var til búningsherbergja eftir 30 mínútur, 18:16.
Fljótlega í síðari hálfleik stungu Selfyssingar af. Þeir náðu fimm til þessa marka forskoti. Léku góðan varnarleik auk þess sem Jón Þórarinn Þorsteinsson unglingalalandsliðsmarkvörður varði allt hvað af tók. Hvorki gekk né rak hjá KA sem varð mest níu mörkum undir, nokkuð sem vart á að eiga sér stað í vígi Akureyrarliðsins.
Mörk KA: Jens Bragi Bergþórsson 6, Gauti Gunnarsson 5, Dagur Gautason 5, Einar Rafn Eiðsson 3, Skarphéðinn Ívar Einarsson 2, Ólafur Gústafsson 2, Allan Nordberg 2, Ragnar Snær Njálsson 1, Arnór Ísak Haddsson 1, Dagur Árni Heimisson 1.
Varin skot: Bruno Bernat 8/1, 32% – Nicholas Satchwell 4, 19%.
Mörk Selfoss: Ísak Gústafsson 7, Atli Ævar Ingólfsson 7, Guðmundur Hólmar Helgason 4, Einar Sverrisson 4, Richard Sæþór Sigurðsson 3, Hannes Höskuldsson 3, Ragnar Jóhannsson 2, Sölvi Svavarsson 2, Tryggvi Sigurberg Traustason 1, Elvar Elí Hallgrímsson 1, Sverrir Pálsson 1.
Varin skot: Jón Þórarinn Þorsteinsson 10/1, 45,5% – Vilius Rasimas 5, 23,8%
Handbolti.is fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.