- Auglýsing -

Sennilega setti Sigurjón Bragi met í landsleik

- Auglýsing -


Margt bendir til að Aftureldingarmaðurinn Sigurjón Bragi Atlason, annar af markvörðum 19 ára landsliðsins í handknattleik, hafi sett met í landsleik gær þegar hann skoraði fimm mörk í fimm skotum í viðureign Íslands og Sádi Arabíu á heimsmeistaramótinu í Kaíró.

Hiklaus skot

Eftir nokkra leit hefur handbolti.is ekki fundið upplýsingar um að markvörður í leik með íslensku landsliðunum, karla eða kvenna, hafi skorað fleiri mörk í landsleik. Öll mörkin skoraði Sigurjón Bragi með hiklausum skotum úr eigin markteig í mark Sádi Arabíu án þess að andstæðingarnir fengju rönd við reist.

Breyting á síðustu árum

Aðeins á síðustu árum hafa markverðir tileinkað sér þá tækni að hitta mark andstæðinganna frá eigin vítateig, ekki síst eftir að sjö á sex reglan var heimiluð og leyft var að kalla markverði af leikvelli og bæta við sóknarmanni þegar einn situr af sér tveggja mínútna refsingu. Áður var það aðeins á valdi hugdjörfustu markvarða að reyna að kasta yfir leikvöllinn og freista þess að skora. Oftar en ekki fengu þeir skömm í hattinn frá þjálfurum eða samherjum enda á stundum um púðurskot að ræða.

Björgvin Páll í fararbroddi

Björgvin Páll Gústavsson hefur verið einna ákafastur íslenskra markvarða við að skora í kappleikjum, jafnt með félagsliðum og landsliðum, á síðustu árum. Fáir markverðir hafa tileinkað sér tækni þá sem Björgvin Páll hefur yfir að ráða.

Alls eru landsliðsmörk Björgvins Páls 26 í gegnum tíðina, flest skoruð á síðustu árum. Hann hefur mest skorað tvö mörk í leik á stórmóti. Þóttu það nokkur tíðindi þegar Björgvin Páll skoraði þrjú mörk í fjórum tilraunum í leik með Skjern gegn Nord­sjæl­land í dönsku úrvalsdeildinni í mars 2019.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -