Íslenska landsliðið lauk keppni í H-riðli heimsmeistaramóts 20 ára landsliða kvenna í handknattleik með 16 marka sigri á bandaríska landsliðinu, 36:20, í Jane Sandanski Arena í Skopje í Norður Makedóníu í kvöld. Sjö mörkum munaði að loknum fyrri hálfleik, 19:12, Íslandi í vil.
HMU20 kvenna – leikjadagskrá, riðlakeppni, úrslit, staðan
Næst á dagskrá er keppni í milliriðlum 16-liða úrslita mótsins gegn Svartfellingum á mánudaginn. Daginn eftir tekur við leikur gegn Portúgal. Keppni í milliriðlum fer fram í fjórum fjögurra liða riðlum. Síðar í kvöld verður ljóst hvort Norður Makedónía eða Angóla fylgja íslenska landsliðinu eftir í milliriðilinn og þá án stiga. Ísland og Portúgal verða með tvö stig hvort í sarpinu þegar milliriðlakeppnin hefst.
Bandaríska landsliðið fer stigalaust í keppni liðanna sem hafna í sætum 17 til 32 og þá án stiga í upphafi.
Vitað var að talsverður munur væri á landsliðum Íslands og Bandaríkjanna. Segja verður þó að bandaríska liðið lék af meiri dug en reiknað var með, ekki síst vegna þess að það hafði fengið slæma útreið gegn Angóla í gær.
Ísland var með yfirhöndina frá upphafi til enda. Bandaríska liðinu tókst að minnka muninn í tvö mörk um skeið í fyrri hálfleik, 9:7 og 10:8. Eftir það skildu leiðir fyrir fullt og fast.
Fjórtán af 16 leikmönnum íslenska liðsins tóku þátt í leiknum. Elín Klara Þorkelsdóttir og Elísa Elíasdóttir komu ekki við sögu. Gott var að geta hvílt þær fyrir átökin framundan á mánudag og þriðjudag. Þjálfararnir rúlluðu vel á mannskapnum, eins og sagt er, og eflaust kærkomið að koma sem flestum í samband við keppnina.
Mörk Íslands: Inga Dís Jóhannsdóttir 6, Sonja Lind Sigsteinsdóttir 5, Katrín Anna Ásmundsdóttir 5, Lilja Ágústsdóttir 4, Sylvía Sigríður Jónsdóttir 4, Alfa Brá Oddsdóttir Hagalín 3, Rakel Oddný Guðmundsdóttir 3, Brynja Katrín Benediktsdóttir 2, Tinna Sigurrós Traustadóttir 2, Embla Steindórsdóttir 1, Hildur Lilja Jónsdóttir 1.
Varin skot: Anna Karólína Ingadóttir 14/1, 50% – Ethel Gyða Bjarnasen 3, 33%.
Handbolti.is fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.