Fyrri úrslitaleikur Vals og spænska liðsins Conservas Orbe Zendal Bm Porrino verður í Porrinu á Spáni 10. eða 11. maí. Valur fær þar með síðari heimaleikinn 17. eða 18. maí í N1-höllinni á Hlíðarenda. Þar með er ljóst að Evrópubikar kvenna fer á loft í Reykjavík að þessu sinni. Verður það í fyrsta sinn í sögunni sem sigurlaun í Evrópukeppni félagsliða verða afhent hér landi.
Dregið var um heimaleikjaréttinn í morgun í Vínarborg. Reikna má með að félögin komi sér saman um leikdaga í vikunni.
Það sem ég vonaðist eftir
„Þetta er niðurstaðan sem ég vonaðist eftir því það er alltaf talað um að betra sé að byrja á útivelli. Að því sögðu er ljóst að við verðum að ná góðum úrslitum úti í fyrri leiknum til þess að úr verði leikur á heimavelli,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson í samtali við handbolta.is í morgun eftir að niðurstaðan lá fyrir.
Hópferð til skoðunar
Valur hefur til skoðunar að efna til hópferðar á fyrri viðureignina en það mál mun að sögn Ágústs skýrast fljótlega en talsverður hópur fólks hefur þegar sýnt hugsanlegri ferð áhuga.
Skammt frá Vigo
Conservas Orbe Zendal Bm er með bækistöðvar í bænum Porrinu skammt frá Vigo í suðvestur-Galisíu, rétt norður af landamærum Spánar og Portúgal.
Conservas Orbe Zendal Bm er í fjórða sæti spænsku 1. deildarinnar. Þess má geta að Málaga Costa del Sol sem Valur vann í 16-liða úrslitum í janúar er í öðru sæti deildarinnar.
Conservas Orbe Zendal Bm Porrin vann Hazena Kynzvart frá Tékklandi í tvígang í undanúrslitum, 31:28 og 30:27.
Valur vann MSK IUVENTA Michalovce frá Slóvakíu, 30:20, í síðari undanúrslitaleiknum í gær en tapaði þeim fyrri, 25:23.
Hér fyrir neðan er upptaka frá drættinum í morgun.