- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Sigrinum í gær var fylgt eftir með öðrum sigri á Pólverjum

Steinunn Björnsdóttir, Elín Rósa Magnúsdóttir, Hafdís Renötudóttir, Elín Klara Þorkelsdóttir Berglind Þorsteinsdóttir, Perla Ruth Albertsdóttir og Sunna Jónsdóttir landsliðskonur. Ljósmynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -


Íslenska landsliðinu í handknattleik kvenna tókst í dag að fylgja eftir sigri sínum í gær með því að leggja pólska liðið í Sethöllinni á Selfossi, 28:24. Mikilvægur áfangi hjá íslenska liðinu að leggja sterkt pólskt lið í tvígang á tveimur dögum og sýna um leið að sigurinn sæti í gær var engin tilviljun. Ljóst er að íslenska liðið er á réttri leið og getur með viðlíka spilamennsku á EM veitt andstæðingum sínum verðuga keppni. Staðan í hálfleik var 14:11 eftir fyrri hálfleik en mestur var munurinn fimm mörk.

Sigurinn gefur ekki síst mikilvægt sjálfstraust inn í hópinn fyrir undirbúninginn á lokaspretti EM sem hefst eftir þrjár vikur en fyrsti leikur á EM verður gegn Hollendingum 29. nóvember í Innsbruck.

Pólska liðið skoraði tvö af fyrstu þremur mörkum leiksins áður en það íslenska tók völdin og skoraði m.a. fjögur mörk í röð og komst yfir, 5:2. Varnarleikurinn var áfram afar góður eins og í gær. Pólsku leikmennirnir voru slegnir út af laginu. Mikil vinnsla var í leikmönnum í miðri vörninni auk þess sem bakverðirnir voru mjög virkir, ekki síst vinstra megin.

Mikil áræðni var áfram í sóknarleiknum og gaman að sjá Andreu Jacobsen fylgja eftir leik sínum í gær. Katrín Anna Ásmundsdóttir var senuþjófur fyrri hálfleiks með fimm mörk, jafnt upp úr venjulegum leik og hraðaupphlaupum. Hún var ein um stöðuna í hægra horninu eftir að Þórey Rósa Stefánsdóttir fékk högg á lærið síðla leiks í gær. Þórey Rósa var ekki með í dag af þeim sökum.

Jafnt og þétt jók íslenska liðið við forskot sitt og náði mest fimm marka forskoti, 12:7 og 13:8, skömmu fyrir hálfleik
Íslenska landsliðið hélt sínu striki í síðari hálfleik.

Varnarleikurinn var öflugur áfram og leiddi pólska liðið í gildru hvað eftir annað. Sóknarleikurinn var áræðinn af hálfu íslenska liðsins þótt mistökum hafi fjölgað þegar á leið enda þreyta eflaust farin að segja til sín. Sömu sögu var að segja um pólska liðið. Það náð aldrei verulega að ógna því íslenska. Munurinn var tvö til fjögur mörk.

Mörk Íslands: Katrín Anna Ásmundsdóttir 7, Andrea Jacobsen 6, Thea Imani Sturludóttir 4, Elín Rósa Magnúsdóttir 3, Dana Björg Guðmundsdóttir 2, Katrín Tinna Jensdóttir 2, Steinunn Björnsdóttir 1, Perla Ruth Albertsdóttir 1, Berglind Þorsteinsdóttir 1, Rut Arnfjörð Jónsdóttir 1.
Varin skot: Elín Jóna Þorsteinsdóttir 5, 20% – Hafdís Renötudóttir 1,20%.

Handbolti.is var í Sethöllinni og fylgdist með viðureigninni í textalýsingu hér fyrir neðan.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -