Sandra Erlingsdóttir og samherjar TuS Metzingen luku árinu á sínum fimmta sigurleik í röð í kvöld þegar þær unnu liðsmenn Neckarsulmer, 35:32, á heimavelli. TuS Metzingen situr í sjötta sæti deildarinnar með 12 stig eftir 10 leiki en 14 lið eru í efstu deild kvenna í þýska handknattleiknum.
Sandra skoraði fjögur mörk í sjö tilraunum og stýrði að vanda sóknarleik TuS Metzingen af röggsemi. Tus Metzingen var tveimur mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 19:17. Leikmenn Neckarsulmer jöfnuðu metin, 25:25, þegar tíu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik. Leikurinn var í járnum allt þar til 12 mínútur voru til leiksloka að Sandra og félagar tóku af skarið og náðu forskoti sem þær héldu til loka.
Allt kom fyrir ekki í Hamborg
Díana Dögg Magnúsdóttir og samherjar i BSV Sachsen Zwickau töpuðu með eins marks mun í æsispennandi leik gegn Buxtehuder í Sporthalle Hamburg að viðstöddum 2.500 áhorfendum, 27:26. Sigurmarkið skoraði heimaliðið þegar 48 sekúndur voru til leiksloka. BSV Sachsen Zwickau átti síðustu sóknina en tókst ekki að skora og krækja í annað stigið þrátt fyrir ákafar tilraunir og leikhlé þegar 30 sekúndur voru til leiksloka.
„Við áttum að vinna þennan leik en gerðum okkur sekar um slæm mistök í síðustu tveimur sóknunum,“ sagði Díana Dögg við handbolta.is í kvöld. Hún skoraði skoraði fjögur mörk, átti fjórar stoðsendingar, skapaði tvö og vann tvö vítaköst.
„Heppnin var allavega ekki með okkur í kvöld. Okkur var ekki ætlað að vinna þennan leik,“ sagði Díana Dögg en m.a. gat línumaður liðsins komið því tveimur mörkum yfir skömmu fyrir leikslok en brást bogalistin.
BSV Sachsen Zwickau er næst neðst með þrjú stig eftir 10 leiki, er stigi á eftir Neckarsulmer og stigi fyrir ofan Waiblingen. Nokkur lið eru í hnapp í neðri hlutanum og m.a. er aðeins fjögur stig upp í liðið í níunda sæti.
Í næstu umferð, laugardaginn 7. janúar, mætast BSV Sachsen Zwickau og TuS Metzingen, í Zwickau.