Sigurður Bragason þjálfari kvennaliðs ÍBV verður ekki við hliðarlínuna á fimmtudagskvöldið þegar ÍBV sækir Fram heim í næsta síðustu umferð Olísdeildar kvenna í handknattleik. Sigurður var í dag úrskurðaður í eins leiks bann á fundi aganefndar HSÍ. Hann „hlaut útilokun með skýrslu vegna mjög ódrengilegrar hegðunar í leik ÍBV og Selfoss í Olísdeild kvenna,“ eins og segir í úrskurðinum.
Bannið tekur gildi á fimmtudaginn.
Fleiri voru úrskurðaðir í leikbann á fundi aganendar í dag. Geir Guðmundsson, leikmaður Hauka, og Jakob Ingi Stefánsson, leikmaður Gróttu, voru einnig úrskurðaðir í leikbann sem tekur gildi á fimmtudaginn. Þar af leiðandi verða þeir gjaldgengir í síðustu umferð Olísdeildar karla sem leikin verður á miðvikdagskvöld.
Geir verður í leikbanni í fyrstu umferð úrslitakeppninnar en Haukar eiga sæti víst í henni. Jakob Ingi tekur út leikbann ef Grótta tekur þátt í umspili Olísdeildar í næsta mánuði. Ef Grótta kemst hjá umspilinu tekur Jakob Ingi út leikbann í fyrstu umferð Olísdeildar á næstu leiktíð.
Fleiri mál voru tekin fyrir á fundi aganefndar í dag. Úrskurðinn í heild er hægt að nálgast í frétt fyrir neðan auglýsinguna.