Ekki aðeins taka yngri landslið þátt í stórmótum í Evrópu á næstu vikum. Íslenskir dómarar og eftirlitsmaður hafa verið valdir til þess að taka þátt í nokkrum þeirra móta sem framundan eru.
Kristján Halldórsson verður eftirlitsmaður á Evrópumóti karla í handknattleik, skipað leikmönnum 20 ára og yngri, sem fram fer í Porto í Portúgal frá 7. til 17. júlí.
Nærri mánuði síðar verður Evrópumót karla, 18 ára og yngri, í Podgorica í Svartfjallalandi. Þangað mæta dómararnir Sigurður Hjörtur Þrastarson og Svavar Ólafur Pétursson með flautur sínar og spjöld til þess að halda uppi röð og reglu í nokkrum leikjum mótsins.
Ísland mun einnig senda keppnislið til beggja móta þar sem 16 bestu landslið Evrópu í viðkomandi aldursflokkum reyna með sér.
Þess utan tekur U18 ára landsliðið þátt í heimsmeistaramótinu sem haldið verður í Skopje í Norður Makedóníu í lok júlí og í byrjun ágúst. Einnig tekur U16 ára landslið kvenna þátt í Opna Evrópumótinu í Svíþjóð í næsta mánuði og undir lok júlí fer U17 ára landslið karla til Slóvakíu og spreytir sig á ólympíudögum Evrópuæskunnar.
Ekki er handbolta.is kunnugt um að dómarar eða eftirlitsmenn frá Íslandi taki þátt í þremur síðarnefndu mótunum.
- Auglýsing -