Sigurður Bragason fráfarandi þjálfari kvennaliðs ÍBV verður aðstoðarþjálfari karlaliðs ÍBV á næstu leiktíð. Eyjamenn tilkynntu þetta í kvöld á samfélagsmiðlum í kjölfar Þjóðhátíðar um nýliðna helgi.
Sigurður verður þar með aðstoðarmaður Erlings Birgis Richardssonar sem tók í sumar við þjálfun karlaliðs ÍBV af Magnúsi Stefánssyni. Magnús leysti Sigurð af sem þjálfari kvennaliðsins.
Sigurður var þjálfari kvennaliðs ÍBV frá 2018 þangað til í vor. Hann var áður í þjálfarateymi karlaliðs ÍBV frá 2015 til 2018. Vorið 2018 vann ÍBV alla titla sem voru í boði.
Þess utan er Sigurður einn af leikjahæstu leikmönnum félagsins.
Fyrsti leikur ÍBV í Olísdeild karla verður á heimavelli gegn HK föstudaginn 5. september. Þangað til á mikið vatn eftir að renna til sjávar með þátttöku í árlegum undirbúningsmótum og leikjum.
Þjálfarar – helstu breytingar 2025