Sigurjón Friðbjörn Björnsson er hættur þjálfun kvennaliðs Gróttu að eigin ósk. Þetta hefur handbolti.is samkvæmt heimildum. Ennfremur herma heimildir að Júlíus Þórir Stefánsson taki við þjálfun Gróttuliðsins, a.m.k. til að byrja með. Júlíus Þórir hefur verið aðstoðarþjálfari Sigurjóns.
Grótta er neðst í Olísdeildinni með tvö stig eftir sjö leiki og tapaði illa á miðvikudagskvöldið fyrir ÍR í Skógarseli, 30:18. Þriðjungur keppninnar í Olísdeildinni er lokið.
Sigurjón Friðbjörn tók við þjálfun Gróttu í byrjun febrúar 2023 þegar Gunnar Gunnarsson sagði starfinu lausu vegna anna í annarri vinnu.
Undir stjórn Sigurjóns Friðbjörns vann Grótta sér sæti í Olísdeildinni í vor eftir að hafa lagt Aftureldingu í rimmu sem lauk með oddaleik í Mosfellsbæ. Grótta hafði þá leikið í Grill 66-deildinni frá 2018.
Næsti leikur Gróttu verður gegn FH í 16-liða úrslitum Poweradebikarkeppni HSÍ í Kaplakrika á miðvikudaginn.
Áður en Sigurjón Friðbjörn tók við Gróttu var hann annar þjálfara kvennaliðs Stjörnunnar.
Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.
Uppfært: Grótta staðfesti ofangreind tíðindi með tilkynningu á fjórða tímanum í dag. Frétt handbolta.is birtist um klukkan 10 í morgun.