Áfram halda landslið Barein og Japan, undir stjórn Arons Kristjánssonar og Dags Sigurðssonar, að vinna sína leiki í handknattleikskeppni karla á Asíuleikunum í Hangzhou í Kína. Eftir leiki í morgun er ljóst að úrslitaleikir bíða beggja landsliða á morgun í uppgjöri riðlakeppni 8-liða úrslita handknattleikskeppninnar.
Stósigur á Kasakstan
Dagur Sigurðsson og Japanir rúlluðu yfir Kasaka, 48:20, í morgun í B-riðli á sama tíma og Katar lagði Kína, 37:20. Ljóst er að Japan og Katar verða í tveimur efstu sætum riðilsins en í fyrramálið mætast þau í uppgjöri um efsta sætið og réttinn til þess að mæta landsliðinu sem hafnar í öðru sæti A-riðils í undanúrslitum.
Arons bíður leikur við Kúveit
Í A-riðli standa Barein og Kúveit jöfn að stigum, með fjögur stig hvort. Barein, sem Aron Kristjánsson þjálfar, vann öruggan sigur á íranska landsliðinu, 29:20, eftir að hafa verið fimm mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 12:7.
Kúveit hefur einnig fjögur stig eftir nauman sigur á Suður Kóreu í morgun, 25:24. Barein og Kúveit leika til úrslita um efsta sæti A-riðils í fyrramálið að íslenskum tíma.