Aldís Ásta Heimisdóttir sá til þess að KA/Þór sendi Hauka í sumarfrí í dag þegar hún tryggði liðinu sigur, 24:23, með þrumuskoti beint úr aukakasti eftir að leiktíminn var úti. Hún kastaði boltanum á milli handa varnarmanna Hauka sem stóðu í varnarvegg. Haukar eru þar með komnir í sumarleyfi en KA/Þór mætir Val í undanúrslitum.
KA/Þór skoraði þrjú síðustu mörk leiksins í afar sveiflukenndum leik eftir að hafa verið fjórum mörkum yfir eftir fyrri hálfleik, 15:11.
Haukar voru síst lakari lengst af fyrri hálfleiks en í kjölfar þriggja brottrekstra á skömmum tíma sneri KA/Þór leiknum sér í hag, úr 10:9, Haukum í vil í 15:11 í hálfleik.
Leikmenn Hauka voru ekki lengi að jafna metin í síðari hálfleik og leika af talsverðum aga. KA/Þórsliðið átti í mesta basli en enn á ný komu brottvísanir undir lokin Haukum í koll. Sem fyrr segir voru Haukar tveimur mörkum yfir, 23:21, þegar skammt var til leiksloka en hélst ekki á forskotinu.
Mörk Hauka: Sara Odden 8, Elín Klara Þorkelsdóttir 4, Ásta Björt Júlíusdóttir 4, Rakel Sigurðardóttir 3, Berta Rut Harðardóttir 2, Birta Lind Jóhannsdóttir 1, Berglind Benediktsdótti 1, Ragnheiður Ragnarsdóttir 1.
Varin skot: Margrét Einarsdóttir 12/1, 25%.
Mörk KA/Þórs: Rut Arnfjörð Jónsdóttir 9/4, Aldís Ásta Heimisdóttir 7, Rakel Sara Elvarsdóttir 4, Kristín Aðalheiður Jóhannsdóttir 2, Ásdís Guðmundsdóttir 1, Unnur Ómarsdóttir 1.
Varin skot: Sunna Guðrún Pétursdóttir 11/1, 33,3% – Matea Lonac 1.
Öll tölfræði leiksins er hjá HBStatz.
Handbolti.is er á Ásvöllum og fylgdist með framvindu leiksins í textalýsingu hér fyrir neðan.