Sigvaldi Björn Guðjónsson landsliðsmaður í handknattleik og fyrirliði norska meistaraliðsins Kolstad hefur ekkert getað æft með liðinu undanfarnar tvær vikur vegna meiðsla í fótlegg. Eftir því sem fram kemur á Topphandbandball getur verið að Sigvaldi Björn verði úr leik í hálfan mánuð í viðbót. Svo viriðst sem um álagsmeiðsli sé að ræða.
Fram kemur að Sigvaldi Björn verði fjarri góðu gamni þegar Kolstad mætir Elverum, sem hann lék með 2018 til 2020, þegar liðin mætast í æfingaleik á morgun.
Einnig er óvíst hvort Sigvaldi Björn verður tilbúinn í slaginn þegar keppni hefst í norsku úrvalsdeildinni sunnudaginn 1. september. Kolstad mætir Runar Sandefjord í upphafsumferðinni.
Fjórir Íslendingar
Norska meistaraliðið Kolstad er orðin Íslendinganýlenda. Þrír Íslendingar bættust í hópinn í sumar, Benedikt Gunnar Óskarsson, Sveinn Jóhannsson og Sigurjón Guðmundsson markvörður. Sá síðastnefndi verður með annan fótinn hjá liði félagsins auk þess að leika með venslafélaginu Charlottenlund.
Kolstad hefur borið ægishjálm yfir önnur lið í karlaflokki í norskum handknattleik undanfarin tvö ár.