Sigvaldi Björn Guðjónsson landsliðsmaður í handknattleik er einn leikmanna norska meistaraliðsins Kolstad sem samþykkt hefur að taka á sig 30% lækkun launa á næsta keppnistímabili.
Jostein Sivertsen sem sér um daglegan rekstur Kolstad sagði frá þessu á blaðamannafundi félagsins í morgun. Sivertsen sat fyrir svörum um fjárhagserfiðleika félagsins og hvað morgundagurinn beri skauti sér svo langt sem séð verður.
Fleiri lækka í launum
Sander Sagosen, Gøran Johannessen, Magnus Abelvik Rød, Vetle Eck Aga, Torbjørn Bergerud og Magnus Gullerud, allt norskir landsliðsmenn, hafa einnig ákveðið að taka á sig 30% launalækknun, eftir því sem fram kom hjá Sivertsen.
Samkomulagið við leikmennina er til eins árs.
Áður hefur komið fram að Christian Berge þjálfari hafi einnig samþykkt að taka við lægri launum næsta ári en hann hefur haft hjá félaginu síðasta árið.
Sivertsen vildi ekki gefa upp hversu mikið sparaðist með endursamningum við leikmennina og þjálfarann.
Eitt ár eftir
Sigvaldi Björn gekk til liðs við Kolstad í Þrándheimi fyrir ári síðan eftir að hafa skrifað undir tveggja ára samning við félagið.
Rekstur Kolstad er þungur eftir að bjartsýnar áætlanir um tekjur hafa ekki gengið eftir.
Janus Daði Smárason kvaddi Kolstad í gærmorgun og samdi við Evrópumeistara SC Magdeburg í Þýskalandi.