Dagur Sigurðsson stýrði króatíska landsliðinu til sigurs í vináttuleik við Afríkumeistara Egyptalands í vináttulandsleik í handknattleik karla í Prelog í Króatíu í dag, 36:29. Bæði landslið eru í óða önn að búa sig undir þátttöku í handknattleikskeppni Ólympíuleikanna í París. Króatar voru fjórum mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 18:14, og voru má heita með yfirhöndina frá upphafi til enda gegn lærsveinum Spánverjans Juan Carlos Pastor.
Eftir því sem fram kemur á heimsíðu Handknattleikssambands Króatíu þá eiga leikmenn landsliðsins að æfa á morgun en fá eftir það þriggja daga frí áður en næsti áfangi æfingatarnarinnar hefst 11. júlí í Opatija.
Mario Šoštarić var markahæstur Króata í dag með átta mörk. Ivan Martinović og Marin Jelinić voru næstir með fimm mörk hvor. Yahia Omar og Seif ElDeraa skoruðu fimm mörk hvor fyrir Egypta og voru markahæstir.
Dagur er með 21 manns leikmannahóp við æfingar fyrir leikana. Hann tefldi 17 þeirra fram í leiknum að þessu sinni.
🇭🇷 𝗢𝗹𝗶𝗺𝗽𝗶𝗷𝘀𝗸𝗼 𝘇𝗮𝗴𝗿𝗶𝗷𝗮𝘃𝗮𝗻𝗷𝗲 𝗽𝗼č𝗲𝗹𝗶 𝘀𝗮 𝘀𝘁𝗶𝗹𝗼𝗺 🚀#crohandball #CROEGY #paris2024 #CROlympic pic.twitter.com/w2TSSeRjUt
— Hrvatski rukometni savez (@HRS_CHF) July 6, 2024