Díana Dögg Magnúsdóttir og samherjar hennar í BSV Sachsen Zwickau unnu góðan útisigur í kvöld á Waiblingen í þýsku 2. deildinni í handknattleik, 23:18, eftir að hafa verið tveimur mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 10:8.
Díana Dögg skoraði eitt mark í fimm skotum. Hún var einnig í stóru hlutverki í vörninni, að vanda.
BSV Sachsen Zwickau-liðið er í þriðja sæti 2. deildar með 12 stig eftir sjö leiki. Herrenberg er fyrir ofan með 14 stig eftir átta leiki en Füchse Berlin trónir á toppnum með 15 stig að loknum átta viðureignum og er auk þess að leika þessa stundina sem þetta er ritað. Díana Dögg og félagar eru þar með áfram í harðri toppbaráttu í deildinni en ljóst virðist að baráttan um sæti í efstu deild muni standa á milli liðanna þriggja.