Sjöunda árið í röð eru það beinar útsendingar frá leikjum karlalandsliðsins í handbolta, stundum nefndir strákarnir okkar, sem er vinsælasta íþróttaefni í sjónvarpi. Frá þessu er greint á vef RÚV í dag. Allir leikir karlalandsliðsins á HM í janúar raða sér í sex efstu sæti af 10 vinsælustu beinu útsendingum ársins 2025.
Sá leikur sem dró flesta landsmenn að viðtækjum sínum á árinu var viðureign Íslands og Egyptalands í milliriðlakeppni HM 22. janúar. Meðaláhorf á leikinn var 47,1% en uppsafnað var það 60,2%. Uppsafnað áhorf þýðir þá sem horfðu í a.m.k. fimm mínútur samfleytt. Þetta er byggt á tölum úr rafrænum ljósvakamælingum Gallup, segir enn fremur á vef RÚV.

Í öðru sæti var leikur Íslands og Slóveníu með 45,3% áhorf og 58,1% í uppsöfnuðu áhorfi. Í þriðja sæti hafnaði útsending frá leik Íslands og Króatíu 24. janúar með 45,1% áhorf og 59,6% í uppsafnað áhorf, lítillega hærra en leikur Íslands og Slóveníu.
Rétt er að minna á að Evrópumót karla fer fram í janúar. Fyrsti leikur íslenska landsliðsins verður gegn ítalska landsliðinu í Kristianstad í Svíþjóð föstudaginn 16. janúar.
Frétt RÚV: Strákarnir okkar í sex efstu sætunum



