Það hafa skipst á skin og skúrir hjá Íslendingaliðinu IFK Kristianstad síðustu vikur eftir að hagstæð úrslit í fyrstu leikjunum í sænsku úrvalsdeildinni í haust. Í kvöld tapaði Kristianstad fyrir Skövde, sem Bjarni Ófeigur Valdimarsson gekk til liðs við á dögunum, 28:23, en leikið var í Skövde. Staðan var jöfn að loknum fyrri hálfleik, 12:12. Þetta var sjöundi tapleikur Kristianstad í 16 leikjum deildarinnar á leiktíðinni.
Ólafur Andrés Guðmundsson, fyrirliði, skoraði fjögur mörk fyrir Kristianstad í fimm skotum, átti þrjár stoðsendingar og var einu sinni vísað af leikvelli. Teitur Örn Einarsson skoraði tvö mörk í sex skotum, átti fjórar stoðsendingar og var í eitt skipti sendur í kælingu.
Bjarni Ófeigur var í liði Skövde eftir að hafa setið yfir vegna meiðsla í tveimur síðustu leikjum liðsins. Hann kom lítið við sögu.
Staðan í sænsku úrvalsdeildinni:
Mlamö 25(16), Ystads IF 25(17), Alingsås 23(17), Skövde 21(17), Sävehof 19(15), Lugi 19(17), Kristianstad 18(16), IFK Ystads 15(15), Hallby 14(17), Önnereds 12(15), Guif 12(16), Helsingborg 10(16), Aranäs 10(16), Varberg 10(16), Redbergslid 9(16).