- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Skildum sáttir – ég elska Bjögga

Bjarki Már Elísson, leikmaður Lemgo. Mynd/Lemgo Lippe
- Auglýsing -

„Mér svo létt yfir að okkur tókst að vinna að ég held að þú trúir mér ekki. Við vorum lélegir og megum teljast góðir að hafa unnið,“ sagði Bjarki Már Elísson, landsliðsmaður í handknattleik og markahæsti leikmaður Lemgo í samtali við handbolta.is í kvöld eftir að Lemgo kreisti út eins marks sigur á Val, 27:26, í fyrri viðureign liðanna í 2. umferð Evrópudeildarinnar í handknattleik í Origohöllinni á kvöld.


„Við vorum alltof ragir í varnarleiknum, lékum hörmulega í sókninni og náðum engum tengingum í vörninni fyrr en síðustu 15 mínúturnar sem var nóg til þess að vinna. En leikurinn var alls ekki góður. Það er þungu fargi af mér létt að vinna. Ég sagði við strákana í liðinu að ég ætlaði ekki að koma heim til Íslands og tapa og það var ekki gott að vera sex mörkum undir um tíma,“ sagði Bjarki Már sem skoraði níu mörk í níu skotum, þar af fjögur mörk úr vítaköstum.

Hefði verið vandræðalegt

Bjarki Már sagði að kæruleysi hafi gert vart við sig hjá félögum hans í sóknarleiknum. Hann hafi reynt að vara menn við að ætla sér að fara létt í gegnum leikinn. Svo virðist vera sem hann hafi talað fyrir daufum eyrum. „Það kom ekki til greina af minni hálfu að koma heim og tapa. Það hefði verið vandræðalegt.


En okkur tókst að vinna þótt ekki hafi verið mikil reisn yfir leik okkar lengst af,” sagði Bjarki Már sem langaði að skora fleiri mörk sjálfur en raun varð á. „Ég hefði viljað fá boltann oftar og skora. Ég var í góðum fíling í kvöld.“


Í fyrri hálfleik rakst Bjarki Már á Björgvin Pál Gústavsson markvörð Vals og samherja í landsliðinu. Bjarki Már stökk þá inn í vítateiginn í hraðaupphlaup með þeim afleiðingum að þeir skullu saman. Bjarki Már lá eftir en brást illa við þegar hann stóð upp og lét skapið hlaupa með sig í gönur. Neitaði að taka við afsökun Björgvins Páls sem rekinn var ranglega af leikvelli með rautt spjald og kom ekkert meira við sögu.

Viðbrögð mín voru röng

„Viðbrögð mín voru röng. Ég hreytti í hann. Tilfinningarnar hjá mér voru miklar í þessum leik. Ég lét þær bera mig ofurliði að þessu sinni. Ég talaði við Björgvin eftir leikinn og við skildum sáttir. Ég elska Bjögga,“ sagði Bjarki Már Elísson aðeins flumbraður á nefinu eftir viðureignina í Origohöllinni í kvöld.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -