Íslendingatríóið hjá Ribe-Esbjerg komst í kvöld í undanúrslit dönsku bikarkeppninnar í handknattleik eftir sigur á Skanderborg Aarhus á heimavelli í æsispennandi leik, 29:28. Hinsvegar féll Aalborg Håndbold úr leik eftir mikinn markaleik á heimavelli GOG, 41:39. Aron Pálmarsson leikur með Aalborg og Arnór Atlason er aðstoðarþjálfari liðsins.
Elvar Ásgeirsson og Arnar Birkir Hálfdánsson komu lítið sem ekkert við sögu hjá Ribe-Esbjerg í kvöld. Ágúst Elí Björgvinsson stóð skamma stund í marki liðsins og varði 2 skot, 18%.
Leikmenn Skanderborg Aarhus áttu síðustu sókn leiksins og fengu úr henni aukakast eftir að leiktíminn var úti. Vörn Ribe-Esberg tók mesta stuðið úr skotinu og fyrir vikið var engin hætta á jöfnunarmarki.
Aron fjögur og Hansen tíu
Aron skoraði fjögur mörk og átti fjórar stoðsendingar fyrir Aalborg-liðið í leiknum við GOG. Mikkel Hansen skoraði 10 mörk og átti sex stoðsendingar.
Undanúrslitaliðin liggja fyrir
Þar með er ljóst eftir leiki átta liða úrslita í kvöld og í gær að Ribe-Esbjerg, GOG, Bjerringbro/Silkeborg og Skjern taka þátt í úrslitahelgi dönsku bikarkeppninnar í febrúar. Aalborg varð bikarmeistari á síðasta keppnistímabili.