- Auglýsing -
- Auglýsing -

Skiptir ekki bara máli fyrir leikmenn heldur líka félagið

Meistaraflokkslið ÍR í Grill66-deild kvenna leiktíðina 2020/2021. Mynd/Facebooksíða ÍR.
- Auglýsing -

Í síðasta vori stóð til að leggja niður meistaraflokkslið ÍR í handknattleik kvenna. Handknattleiksdeildin stóð á fjárhagslegum brauðfótum og var þetta ein þeirra aðgerða sem grípa átti til. Mikið óánægjualda reis, jafnt innan ÍR sem utan, þegar það spurðist út að leggja ætti liðið niður. Var það til þess að horfið var frá áformunum. Hópur fólks tók höndum saman um að tryggja að ÍR héldi úti meistaraflokki kvenna eins og meistaraflokksliði karla þótt ljóst væri að grípa yrði til sparnaðar á báðum vígstöðvum.

„Það skipti ekki bara máli fyrir leikmennina heldur einnig hafði það mikið að segja fyrir félagið að horfið var frá þeim áformum að leggja meistaraflokk kvenna niður á síðasta vori eins og stóð til,“ segir Finnbogi Grétar Sigurbjörnsson, annar þjálfari kvennalið ÍR í samtali við handbolta.is.

„Var talsvert púsluspil að fá leikmenn til þess að öðlast trú á að leika aftur fyrir ÍR“


ÍR-liðinu hefur vegnað vel á leiktíðinni og hefur unnið unnið sex af 10 leikjum sínum í Grill 66-deildinni. En mest um vert er þó að áfram var haldið úti meistaraflokksliði hjá ÍR og stúlkum þar með gefinn sami kostur og piltum að eiga þess kost að leika fyrir sitt félag.

„Við njótum hvers leiks og þess að vera saman. Það hefur gefist vel eftir að við fórum aftur í einfaldleikann eftir að hafa verið í basli fyrst eftir að keppni hófst aftur eftir covidhléið,“ segir Finnbogi Grétar sem er þrautreyndur þjálfari og m.a. um skeið aðstoðarlandsliðsþjálfari í kvennaflokki.

Finnbogi Grétar Sigurbjörnsson, þjálfari, gefur leikmönnum góð ráð. Mynd/Facebook-síða ÍR.


Finnbogi Grétar segir leikmannahóp ÍR vera blöndu af uppöldum ÍR-ingum og öðrum sem hafa kosið að ganga til liðs við félagið. „Margir hafa verið hjá okkur í þrjú til fjögur ár. Einnig eru nokkrir ungir leikmenn. Til að mynda í kvöld voru fjórir 16 ára leikmenn inni á vellinum á sama tíma sem eru uppaldir ÍR-ingar. Þær voru hinsvegar ekki inni á vellinum af því að þær eru ÍR-ingar heldur vegna þess að þær átti erindi í leikinn. Þær eru góðar,“ sagði Finnbogi Grétar og undirstrikar að aldursdreifing liðsins sé nokkur sem er jákvætt sem sýnir vel breiddina sem ríkir innan leikmannahópsins.

Umræðan myndaði drifkraft


Finnbogi Grétar segir að það sé mörgum að þakka utan vallar sem innan að meistaraflokkur ÍR var ekki lagður niður. Upp úr umræðunni á síðasta vori myndaðist kraftur innan starfsins sem hafi auðveldað róðurinn.

„Hér myndaðist mikill drifkraftur, ekki bara innan félagsins heldur einnig í hverfinu. Margir komu til liðs við okkur og hafa tekið að sér margvísleg störf. Því miður þá hefur þessi hópur orðið að láta sér nægja að fylgjast með heimaleikjum ÍR-liðsins í gegnum streymi okkar frá leikjunum. Vonandi verður breyting á fljótlega svo fólk eigi þess kost að koma á völlinn og sjá okkur spila.“

Mikill vinna að baki


„Ég viðurkenni það að það var mikil vinna hjá fjölmennum og góðum hópi fólks að koma starfinu af stað aftur. Það var meðal annars talsvert púsluspil að fá leikmenn til þess að öðlast trú á að leika aftur fyrir ÍR, halda áfram og fá aðra leikmenn inn í verkefnið. Eins og staðan er núna þá erum við sátt við okkar hlutskipti í mótinu,“ sagði Finnbogi Grétar Sigurbjörnsson annar þjálfari meistaraflokks kvenna hjá ÍR í samtali við handbolta.is í gærkvöld eftir sigurleik ÍR-inga á Víkingi í Austurbergi í Grill 66-deildinni, 29:24.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -