HK og ÍBV skildu jöfn, 25:25, í upphafsleik Ragnarsmótsins í handknattleik karla í Sethöllinni á Selfossi í kvöld. Einn af nýju leikmönnum ÍBV, Jakob Ingi Stefánsson, tryggði liðinu annað stigið. HK var tveimur mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 16:14.
HK-ingar voru með frumkvæðið í fyrri hálfleik og náðu mest þriggja marka forskoti. Fljótlega í síðari hálfleik jafnaðist leikurinn og var hnífjafn og spennandi til loka.
Haukur Ingi Hauksson fór á kostum hjá HK og skoraði 14 mörk. Jakob Ingi var atkvæðamestur leikmanna ÍBV með sjö mörk auk þess sem Dagur Arnarsson og Kristófer Ísak Bárðarson létu til sína taka með sex mörkum hvor.
Rökkvi hleypur í skarðið
Eins og kom fram á handbolti.is á laugardaginn ristarbrotnaði Brynjar Vignir Sigurjónsson markvörður HK í æfingaleik í síðustu viku. Þar á ofan verður Jovan Kukobat markvörður fjarri góðu gamni næstu mánuði vegna meiðsla sem hann hlaut á síðustu leiktíð. Hann fór í aðgerð í sumar. Samkvæmt liðsuppstillingum á HBStatz þá virðist HK hafa fengið Rökkvi Pacheco Steinunnarson markvörð ÍR til að hlaupa í skarðið og vera Róberti Erni Karlssyni til halds og trausts næstu vikur með Brynjar Vignir verður úr leik.
Auk Brynjars Vignis og Jovans vantaði fleiri leikmenn í bæði lið. M.a. voru Andri Helgason og Aron Dagur Pálsson ekki með HK. Hjá ÍBV voru Andri Erlingsson og Elís Þór Aðalsteinsson ekki með. Þeir voru að koma til landsins í dag frá Egyptalandi frá heimsmeistaramóti 19 ára landsliða eins og Ágúst Guðmundsson leikmaður HK.
Mörk ÍBV: Jakob Ingi Stefánsson 7, Dagur Arnarsson 6, Kristófer Ísak Bárðarson 6, Ívar Bessi Viðarsson 2, Daníel Þór Ingason 1, Egill Oddgeir Stefánsson 1, Nökkvi Snær Óðinsson 1, Sveinn José Rivera 1.
Varin skot: Petar Jokanovic 10.
Mörk HK: Haukur Ingi Hauksson 14, Sigurður Jefferson Guarino 4, Leó Snær Pétursson 3, Örn Alexandersson 3, Styrmir Hugi Sigurðarson 1.
Varin skot: Róbert Örn Karlsson 14, Rökkvi Pacheco Steinunnarson 1.
Allir leikir Ragnarsmótsins eru sendir út á Handboltapassanum.