- Auglýsing -
Viggó Kristjánsson, landsliðsmaður í handknattleik og leikmaður Stuttgart í Þýskalandi reiknar með að verða klár í slaginn með Stuttgart 6. febrúar þegar liðið leikur sinn fyrsta leik í deildinni á nýju ári. Viggó missteig sig illa í leik Íslands og Frakklands í milliriðlakeppni HM fyrir rúmri viku og strax eftir leik virtist útlitið ekki vera bjart um að Viggó léki handknattleik næstu vikurnar. Viggó sagði við handbolta.is í gær að hárrétt og skjót viðbrögð sjúkraþjálfara íslenska landsliðsins, Elís Þórs Rafnssonar og Jóns Birgis Guðmundssonar, hafi skipt sköpum og flýtt mjög fyrir batanum.
„Ástandið er mun betra en við áttum von á strax eftir leik. Elli og Jóndi náðu að meðhöndla þetta mjög vel fyrstu dagana sem gerir gæfumuninn. Ég geri ráð fyrir að vera klár í fyrsta leik í deildinni 6. febrúar,“ sagði Viggó við handbolta.is í gærkvöld. Þessi stað staðreynd er í rós í hnappagat Elísar og Jóns Birgis sem eru mikils metnir af handknattleiksfólki.
Elís Þór sagði handbolta.is daginn eftir að Viggó varð fyrir óhappinu að hann reiknaði með að skyttan yrði frá keppni í „einhverjar vikur“ eins og hann orðaði það.
„Ef þeir hefðu ekki meðhöndlað þetta svona vel þá hefði batatíminn verið eitthvað lengri,“ sagði Viggó sem er næst markahæsti leikmaður þýsku 1. deildarinnar en sá markahæsti ef litið er til marka að meðaltali í leik.
- Auglýsing -