Haukur Þrastarson og samherjar í pólska meistaraliðinu Industria Kielce slógu ekki upp flugeldsýningu í morgun þegar þeir hófu keppni á heimsmeistaramóti félagsliða í Dammam í Sádi Arabíu. Þeir létu nægja að gera það sem gera þurfti til þess að vinna Al-Najma frá Barein, 27:26, eftir að hafa verið fjórum mörkum yfir í hálfleik. Þetta var upphafsleikur mótsins.
Al-Najma var marki yfir, 26:25, þegar skammt var til leiksloka en Hauki og félögum tókst að bjarga andlitinu í lokin.
Haukur skoraði tvö mörk í fimm skotum og átti sex stoðsendingar. Artsem Karalek var markahæstur með fimm mörk. Pawel Paczkowski og Nicolas Tournat skoruðu fjórum sinnum hvor. Alex Dujshebaev er byrjaður að leika með liðinu á ný eftir að hafa verið frá keppni í nokkrar vikur vegna meiðsla. Hann skoraði tvisvar eins og Haukur.
Þýski landsliðsmarkvörðurinn Andreas Wolff lék sinn fyrsta leik fyrir Kielce á tímabilinu og varði sjö skot, 37%, eftir að hafa staðið í marki liðsins annan hálfleikinn.
Mohamed Ahmed skoraði átta mörk fyrir Al-Najma. Ali Saleh, markvörður Al-Najma, þótt skara fram úr öðrum. Hann varði 15 skot og reyndist leikmönnum pólska liðsins óþægur ljár í þúfu.
Síðar í dag mæta Evrópumeistarar SC Magdeburg liði Al Khaleej frá Sádi Arabíu. Reikna má með að Janus Daði Smárason og Ómar Ingi Magnússon láti til sín taka í leiknum en þeir leika með SC Magdeburg.