„Ég var á köflum ánægður með frammistöðuna í dag. Mér fannst hún vera skref upp á við miðað við tvo fyrstu leikina. Við áttum hauskúpuleik á föstudaginn og ætluðum okkur og sýna einhvern karakter. Löngu kaflarnir hefðu mátt vera lengri í dag en Valur er með mjög vel mannað lið sem leikur gríðarlega góða vörn,“ segir Eyþór Lárusson þjálfari Selfoss í samtali við handbolta.is eftir sjö marka tap, 30:23, fyrir Val í þriðju umferð Olísdeildar kvenna í handknattleik.
Hauskúpuleikurinn svokallaði sem Eyþór nefnir er tapið á heimavelli fyrir Gróttu, 25:22, í Sethöllinni, á síðasta föstudag.
„Heilt yfir er ég að mörgu leyti ánægður með frammistöðuna. Leikur okkar eru upp á við frá því á föstudaginn. Framundan er tveggja vikna hlé í Olísdeildinni sem við verðum klárlega að nýta vel og ætlum okkur að gera,“ segir Eyþór ennfremur.
Engrar örvæntingar er farið að gæta í herbúðum nýliðanna eftir þrjú töp í þremur fyrstu leikjunum en þeir eru eina lið deildarinnar sem er stigalaust. „Það er engin örvænting hjá okkur enda 18 leikir eftir af tímabilinu,“ segir Eyþór Lárusson þjálfari Selfoss.
Lengra viðtal er við Eyþór í myndskeiði efst í fréttinni.
Sjá einnig: Þriðji öruggi sigur Íslandsmeistaranna
Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.