Ragnhildur Edda Þórðardóttir hefur skrifað undir þriggja ára samning við handknattleikdeild FH. Hún kom að láni til FH frá Val í janúar en hefur nú ákveðið að skjóta rótum í Kaplakrika.
Ragnhildur Edda leikur í vinstra horni og skoraði 42 mörk í 10 leikjum með FH í Grill66-deildinni. Hún verður í eldlínunni í kvöld með félögum sínum í FH þegar FH sækir ÍR heim í fyrsta leik liðanna í undanúrslitum umspils um sæti í Olísdeildinni. Hefst leikurinn klukkan 19.30 í Austurbergi.
Ragnhildur Edda átti sæti í yngri landsliðum Íslands og var einnig í æfingahóp B-landsliðs Íslands.
„Ég er mjög ánægð með að vera áfram hjá FH. Mér var strax vel tekið hjá félaginu og af liðsfélögum mínum og mér líður mjög vel. Aðstaðan í Kaplakrika er svo auðvitað ein sú besta á landinu, þjálfarateymið mjög gott, og mikið af góðu fólki að vinna í kringum kvennastarfið sem er alveg frábært. Það er allt gert fyrir okkur stelpurnar hjá FH. Ég hlakka mikið til næstu ára með FH og fá að vera með á þeirri spennandi leið sem félagið er á,“ er haft eftir Ragnhildi Eddu Þórðardóttur í tilkynningu handknattleiksdeildar FH í dag.
- Auglýsing -