Elínborg Katla Þorbjörnsdóttir hefur skrifað undir tveggja ára framlengingu á samningi sínum við handknattleiksdeild Selfoss. Þetta kemur fram í tilkynningu.
Þrátt fyrir ungan aldur er Elínborg Katla að hefja sinn fjórða vetur í meistaraflokki. Á þeim tíma hefur hún unnið sig upp úr því að vera efnileg upp í að vera ein af markahæstu leikmönnum Selfoss þegar liðið vann Grill66-deildina í vor og tryggði sig í Olísdeildina síðasta vetur.
Elínborg Katla hefur einnig leikið með yngri landsliðunum og var m.a. í U17 ára landsliðinu sem hafnaði í öðru sæti í B-hluta Evrópumótsins í Litáen sumarið 2021.
„Það hefur verið gaman að fylgjast með Elínborgu takast á við aukna ábyrgð og vaxa með hlutverki sínu. Við erum glöð að fá að sjá hana taka næstu skref sem hluti af gríðarlega spennandi liði Selfoss í Olísdeildinni í vetur,“ segir m.a. í tilkynningu frá handknattleiksdeild Selfoss í dag.
Fyrsti leikur Selfoss í Olísdeild kvenna á leiktíðinni verður við HK í Kórnum á laugardaginn.
handbolti.is nýtur ekki opinbers rekstrarstuðnings.
- Auglýsing -