- Auglýsing -
- Auglýsing -

Skýst heim frá Danmörku í leiki með Aftureldingu

Sylvía Björt Blöndal leggur mikið á sig til þess að leika með Aftureldingu í Olísdeildinni. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

Eins og handknattleiksunnendur hafa e.t.v. tekið eftir þá hefur Sylvía Björt Blöndal haldið áfram að leika með Aftureldingu í Olísdeildinni þrátt fyrir að vera í meistaranámi í Danmörku. Hún hefur tekið þátt í tveimur fyrstu leikjum Aftureldingar og mun halda áfram að leika með liðinu eftir því sem hún hefur tök á þrátt fyrir að búa ytra næsta árið.


Áður hafði handbolti.is sagt frá að Sylvía Björt yrði ekki með Aftureldingu á leiktíðinni vegna náms í Danmörku.

Sylvía Björt hefur flogið heim í leikina á föstudagskvöldum og aftur út á sunnudögum. Afturelding greiðir vitanlega ferðakostnað. Guðmundur Helgi Pálsson þjálfari Aftureldingar sagði að þessi háttur yrði hafður á þegar það hentaði Sylvíu að koma heim og leggja samherjum sínum lið.

Námið hefur forgang

„Námið hefur að sjálfsögðu algjöran forgang en Sylvía kemur heim og verður með okkur í þeim leikjum sem hún hefur tök á að taka þátt í,“ sagði Guðmundur Helgi sem vitanlega er ánægður að liðið njóti áfram krafta Sylvíu Bjartar þrátt fyrir vegalengdirnar og ekki síður að geta boðið Sylvíu upp á þennan möguleika.

Sylvía Björt sér um að halda sér í líkamlegu formi með æfingum ytra þegar hún hefur tök á auk þess að vera í reglulegu sambandi við þjálfarateymi Aftureldingar og leikmenn.

Sylvía Björt hefur þegar skorað 14 mörk í tveimur fyrstu leikjum Aftureldingar. Mosfellingar fögnuðu sínum fyrsta sigri í Olísdeildinni á laugardaginn gegn Stjörnunni, 29:28.

Næsti leikur Aftureldingar verður við Hauka á fimmtudagskvöld á Ásvöllum. Þremur dögum síðar leikur Afturelding við ÍBV í Vestmannaeyjum. Óvíst er um þátttöku Sylvíu Bjartar í báðum leikjum.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -