Ungverjaland, Króatía, Serbía, Þýskaland auk Íslands tryggðu sér í dag sæti á heimsmeistaramótinu í handknattleik karla í dag. Slóvenar, sem lengi hafa verið, í fremstu röð sitja hinsvegar, eftir með sárt ennið eftir að hafa tapað tvisvar sinnum fyrir Serbum, síðast í dag með þriggja marka mun, 23:20, í Kragujevac í Serbíu.
Ungverjar lentu í mesta basli gegn Ísraelsmönnum á miðvikudaginn. Þeir létu það ekki henda sig í síðari viðureigninni í Tatabánya í Ungverjalandi í dag og unnu öruggan sigur, 31:22.
Alfreð Gíslason og lærisveinar hans í þýska landsliðinu unnu Færeyinga öðru sinni í kvöld þegar leikið var í Þórshöfn, 33:27.
Elías Ellefsen á Skipagötu var markahæstur í færeyska landsliðinu með níu mörk. Pætur Mikkjalsson fyrrverandi leikmaður KA var næstur með fimm mörk. Nicholas Satchwell markvörður KA varði tvö skot í markinu þann tíma sem hann stóð vaktina.
Lukas Mertens og Luca Witzke skoruðu fimm mörk hvor fyrir þýska liðið sem var einu marki undir að loknum fyrri hálfleik, 16:15.
Úrslit dagsins í undankeppni HM.
Ungverjaland – Ísrael 31:22 (64:54).
Króatía – Finnland 36:22 (70:43).
Ísland – Austurríki 34:26 (68:56).
Serbía – Slóvenía 23:20 (57:51)
Færeyjar – Þýskaland 27:33 (53:67).
Á morgun lýkur Evrópuhluta undankeppni HM með þremur leikjum. Úrslit fyrri leikja eru innan sviga.
Svartfjallaland – Grikkland (23:25).
Norður Makedónía – Tékkland (24:24).
Holland – Portúgal (33:30) – Erlingur Richardsson er landsliðsþjálfari Hollands.
Belgía komst áfram eftir fyrstu umferð eftir að Rússum var vísað úr keppni en Belgía og Rússland áttu að eigast við í annarri umferð.