Hans Lindberg, sem lék með danska landsliðinu gegn Íslendingum á Evrópumeistaramótinu í handknattleik í gærkvöld greindist smitaður af covid í dag. Þetta er fyrsta smitið sem kemur upp í herbúðum danska landsliðsins eftir að Evrópumeistaramótið hófst. Lindberg hefur tekið þátt í þremur síðustu leikjum danska landsliðsins.
Lindberg, sem er af íslensku bergi brotinn en foreldrar hans eru íslenskir, sat á varamannabekknum allan leikinn við Íslendinga í gær.
Hafliði Breiðfjörð ljósmyndari, sem myndaði leik Íslands og Danmerkur í gær, náði myndum af Lindberg eftir leikinn þegar hann veifaði til Íslendinga sem hann kannast við og voru á meðal áhorfenda.
Eins og aðrir sem smitast á mótinu er Lindberg nú kominn í einangrun.
Nikolaj Jacobsen, þjálfari danska landsliðsins, segir í samtali við fjölmiðla í heimalandinu að hann ætli að svokomnu máli ekki að kalla inn varamann í stað Lindbergs.