„Við erum ánægðir með að vera komnir á leiðarenda. Síðustu menn skila sér hingað á hótelið á næsta klukkutímanum. Eftir það tekur við snarpur undirbúningur fyrir leikinn á miðvikudaginn,“ sagði Gunnar Magnússon annar starfandi þjálfara karlalandsliðsins í handknattleik í samtali við handbolta.is við komuna til Brno í Tékklandi í kvöld. Leikmenn eru að koma sér fyrir á hótelinu Brno sem er það sama og íslenska karlalandsliðið dvaldi á fyrir sex árum þegar Tékkar voru sóttir heim í undankeppni EM 2018. Viðureigninni þá lauk með þriggja marka sigri Tékka, 27:24.
„Undirbúningurinn verður stuttur og snarpur. Við fáum morgundaginn og síðan tekur leikurinn gegn Tékkum við á miðvikudaginn,“ sagði Gunnar og bætir við að vissulega sé tíminn knappur fyrir hann og Ágúst Þór Jóhannsson og hrista hópinn saman en kosturinn sé þó að báðir störfuðu þeir við hlið Guðmundar Þórðar Guðmundssonar. Ekki verði leitað langt yfir skammt.
Breytingarnar verða litlar
„Breytingarnar verða litlar. Lagt verður upp með svipaðan leik og áður. Reynt verður að aðlaga sóknarleikinn að andstæðingnum eins og áður og sóknarvopnin brýnd. Það verða engin stakkaskipti,“ sagði Gunnar af yfirvegun.
Þekkja vel til Tékka
Talsvert myndefni er í fórum þjálfaranna frá síðustu leikjum Tékka sem fram fóru í janúar þótt þeir hafi ekki verið með á HM í Svíþjóð og Póllandi þá notuðu þeir tímann til þess að leika sex vináttuleiki í lok desember og í byrjun janúar.
„Við erum bæði með nýja og eldri leiki með Tékkum. Upplýsingar þær sem við höfum er góðar. Þær höfum við farið vel yfir og teljum okkur vera eins vel undirbúna og kostur er,“ sagði Gunnar sem ásamt Ágústi Þór stýrir landsliðinu á ný gegn Tékkum í Laugardalshöll á sunnudaginn.
Vildum ekki tefla á tæpasta vað
Arnór Snær Óskarsson, leikmaður Vals, var kallaður inn í landsliðshópinn í gærkvöld og er mættur til leiks í Brno. Gunnar sagði að Viggó hafa verið að glíma við meiðsli í nára og þess vegna var ákveðið að velja Arnór Snæ sem sautjánda leikmann í hópinn.
„Við vonumst til þess að Viggó verði klár í slaginn með okkur en vegna þess að staðan var tvísýn vildum við ekki tefla á tæpasta vað. Þess vegna völdum við Arnór með í ferðina. Hann verður þá tilbúinn að taka við keflinu ef þörf verður á,“ sagði Gunnar Magnússon annar þjálfara íslenska landsliðsins í handknattleik í samtali við handbolta.is.
Arnór Snær fór með landsliðinu til Tékklands
Tíðindamaður handbolta.is slóst í för með landsliðinu til Brno í Tékklandi.