- Auglýsing -
- Auglýsing -
-Auglýsing-

„Snorri hlýtur bara að sjá inn í framtíðina“

- Auglýsing -

„Það kemur mér á óvart hvað mér líður vel í dag auk þess sem ég allur að hressast af veikindunum,“ sagði Einar Þorsteinn Ólafsson landsliðsmaður í handknattleik glaður í bragði í gær, daginn eftir að hann reis upp af sjúkrarúmi og stóð nær allan síðari hálfleikinn gegn Ungverjum í vörn íslenska landsliðsins. Þátttaka og ekki síður vaskleg framganga Einars Þorsteins í leiknum kom mörgum e.t.v. á óvart en hann hafði verið rúmliggjandi með flensu í fimm daga. Landsliðsþjálfarinn ákvað skömmu fyrir leikinn að veðja á Einar Þorsteinn þrátt fyrir veikindin.

Er að sækja í sig veðrið

„Veikindin tóku úr mér nokkurn kraft en ég hef verið að koma til baka hægt og bítandi. Ég ætla til dæmis að njóta þess að eiga rólegan dag í dag,“ sagði Einar sem var í þann mund að setja upp í rútu til að fara frá Kristianstad til Malmö þegar handbolti.is rabbaði við pilt.

Tókst að kreista allt fram

„Ég hef nú sjaldan upplifað svona veikindi ofan í leiki en einhvern veginn tókst að kreista allt úr mér í leiknum sem nægði til að klára leikinn,“ sagði Einar og viðurkenndi að hafa verið andstuttur við gang upp og niður stiga fyrst eftir að hann komst á fætur er mestu veikindin voru gengin yfir.

Einar Þorsteinn með tvo vatnsbrúsa bíður ásamt Gísla Þorgeiri eftir því hvort Ýmir Örn fengi rautt spjald eða ekki. Ljósmynd/Hafliði Breiðfjörð

Var ekki með allt á hreinu

Einar hafði ekki undirbúið sig vel fyrir leikinn og hafði til dæmis ekki setið fundi fyrir viðureignina við Ungverja. Hann var þar með ekki gjörla inni í leikskipulaginu sem lagt var upp með. Snorri Steinn Guðjónsson ákvað að morgni leikdags fyrir viðureignina við Ungverja að styrkja varnarleikinn á kostnað sóknarleiksins. Skipti hann Einari Þorsteini inn fyrir Andra Má Rúnarsson. Skiptingin borgaði sig vegna þess að tveir öflugir varnarmenn, Elvar Örn Jónsson og Ýmir Örn Gíslason, tókst ekki að leika nema um hálfan leikinn. Elvar meiddist og Ýmir fékk rauða spjaldið.

Einar Þorsteinn saumar að Ungverjanum Gergő Fazekas. Ljósmynd/Hafliði Breiðfjörð

Sér inn í framtíðina

„Snorri hlýtur bara að sjá inn í framtíðina,“ sagði Einar og brosti. „Ég reiknaði sannarlega ekki með því þegar kom í keppnishöllina að ég myndi standa í vörninni í 25 mínútur. En um leið og ljóst varð að Ýmir yrði ekki meira með þá var ég klár í slaginn,“ sagði Einar og viðurkenndi að hafa verið aðeins „ryðgaður“ fyrstu mínúturnar eftir að hann kom inn á völlinn.

Lítið leikið með Elliða

„Ég var hvorki vel inni í leikplaninu né mjög kunnugur andstæðingunum. Ég varð bara að spila minn leik og vonast til þess að vera nógu góður. Þess utan höfum við Elliði lítið leikið saman fyrir leikinn við Ungverja. Við vorum einmitt að hafa orð á þessu á æfingu um daginn. Þegar á hólminn var komið þá náðum við að límast vel saman,“ sagði Einar Þorsteinn Ólafsson með alþekktri yfirvegun.

Ber er hver að baki nema sér bróður eigi. Elliði Snær Viðarsson og Einar Þorsteinn Ólafsson. Ljósmynd/Hafliði Breiðfjörð

Næsti leikur íslenska landsliðsins verður á morgun, föstudag, gegn Króatíu í Malmö Arena. Flautað verður til leiks klukkan 14.30.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -