- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Snorri velur hópinn fyrir Grikkjaleikina – verða breytingar frá HM?

Karlalandsliðið á fyrir höndum tvo leiki við Grikki í undankeppni EM. Ljósmynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -


Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari karla í handknattleik tilkynnir síðar í dag hvaða leikmenn hann velur til þess að taka þátt í leikjunum tveimur við Grikki í undankeppni Evrópumótsins 2026. Fyrri viðureignin fer fram miðvikudaginn í næstu viku í Chalkida í Grikklandi. Síðari leikurinn verður í Laugardalshöll laugardaginn 15. mars. Landsliðið kemur saman í Chalkida, skammt frá Aþenu á mánudaginn eftir viku.

Ísak var ekki valinn í U21 árs liðið

Ekki er útilokað að stór tíðindi verði í valinu í dag. Eins og lesendur handbolta.is tóku vafalaust eftir á dögunum þegar 21 árs landslið karla var valið vegna þátttöku á æfingamóti í Frakklandi í næstu viku þá var Ísak Steinsson markvörður Drammen í Noregi ekki í hópnum. Gaf það vangaveltum byr undir báða vængi að hann verði í A-landsliðinu sem mætir Grikklandi og Snorri Steinn velur í dag. Ísak, sem þykir mikið efni, æfði með A-landsliðinu í janúar. Ísak lék síðast með Drammen í gær.

Nokkrir hafa verið og eru meiddir

Töluvert hefur verið um meiðsli meðal landsliðsmanna síðustu vikur og mánuði. Heldur er að rætast úr í þeim efnum sem væntanlega gefur Snorra Steini möguleika til þess að velja einhverja þeirra sem hafa verið fjarverandi.

Ómar og Arnar eru mættir

Ómar Ingi Magnússon leikmaður SC Magdeburg lék með liði sínu í gær gegn Potsdam í þýsku 1. deildinni. Ómar Ingi hafði verið úr leik síðan í lok nóvember vegna ökklameiðsla og var ekki með á HM af þeim sökum.

Arnar Freyr Arnarsson, sem meiddist í fyrri vináttuleiknum við Svía nokkrum dögum fyrir HM í janúar, var í leikmannahóp MT Melsungen á laugardaginn gegn Flensburg.

Bjarki Már Elísson er mættur af krafti til leiks eftir hnémeiðsli sem hann varð fyrir á æfingu undir lok HM. Bjarki Már hefur tekið þátt í tveimur síðustu leikjum Veszprém, síðast á laugardaginn.

Hafa ekki leikið síðustu vikur

Gísli Þorgeir Kristjánsson leikmaður Magdeburg meiddist fyrir tveimur vikum og er óvíst um þátttöku hans á handboltavellinum á næstunni samkvæmt tilkynningu SC Magdeburg á dögunum.

Viggó Kristjánsson hefur ekkert leikið með HC Erlangen eftir að hann sneri heim að loknum heimsmeistaramótinu hvar hann var markahæsti leikmaður íslenska landsliðsins.

Einnig hefur Teitur Örn Einarsson, leikmaður Gummersbach, verið töluvert frá keppni síðustu vikur eftir að hafa verið með íslenska landsliðinu á HM í janúar eins og Gísli Þorgeir og Viggó.

Bjartsýni varðandi Viktor

Viktor Gísli Hallgrímsson markvörður meiddist fyrir rúmri viku. Hann er einnig úr leik þessa dagana og tók m.a. ekki þátt í toppslag Wisla Plock og Industria Kielce í gær. Wisla Plock tapaði með eins marks mun, 25:24.

Viktor Gísli var vongóður þegar handbolti.is heyrði honum í síðustu viku og samkvæmt heimildum handbolta.is eru nokkrar líkur á að hann geti tekið þátt í landsleikjunum.

Auk Ísaks markvarðar hafa verið uppi vangaveltur um það hvort Andri Már Rúnarsson, Arnór Snær Óskarsson, Benedikt Gunnar Óskarsson, Dagur Gautason og Kristján Örn Kristjánsson, Donni, verði kallaðir til sögunnar að þessu sinni.

Íslenska landsliðið er í efsta sæti riðils þrjú í undankeppni EM 2026 eftir fyrstu tvær umferðirnar. Ísland hefur 4 stig, Grikkland og Bosnía 2 stig hvor og Georgía er án stiga.
Undankeppninni lýkur í maí. Íslenska landsliðið mætir landsliði Bosníu í Sarajevo 7. maí og Georgíu í Laugardalshöll sunnudaginn 11. maí.
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -