„Ég sofnaði ekki fyrr en á milli þrjú og hálf fjögur í nótt. Adrenalínið var ennþá á fullu,“ segir Viktor Gísli Hallgrímsson markvörður íslenska landsliðsins í samtali við handbolta.is á hóteli íslenska landsliðsins í Zagreb laust upp úr hádeginu í dag. Viktor Gísli var stórkostlegur í markinu, varði 17 skot, 48% hlutfallsmarkvarsla. Honum veitir sannarlega ekki af því að leggja sig í dag til að ná upp orku fyrir næstu viðureign, gegn Egyptalandi annað kvöld.
Sjá einnig: Myndasyrpa: Stjarnan sem skærast skein
„Það má segja að leikurinn hafi gengið samkvæmt áætlun hjá okkur. Við vorum mjög harðir við þá í vörninni sem gerði mér auðvelt fyrir að komast í gang. Þannig að þetta var geggjaður leikur. Ætlaði að það hafi ekki endanlega komið í mér í gang í gærkvöld þegar ég kastaði mér á eftir snúningnum,“ segir Viktor Gísli sem telur vafalítið að frammistaðan í gærkvöld hafi verið meðal fimm bestu leikja hans hingað til.
„Jafnvel á topp þrjú á ferlinum,“ segir Viktor Gísli.
Mikilvægt að ná heilum leik
Viktor Gísli segir mikilvægt að halda einbeitingu leikinn á enda. Komið hafi fyrir hjá sér að eiga góðan fyrri hálfleik en síðari síðari hálfleik. „Galdurinn er meðal annars sá að ná góðum fyrstu tíu mínútum. Eins og í síðari hálfleik í gær þá náði ég tveimur góðum vörslum snemma sem hjálpaði mikið við halda sér við efnið í síðari hálfleik. Ég er afar ánægður með að ná góðum sextíu mínútum. Það er afar mikilvægt fyrir mig,“ segir Viktor Gísli.
Æðislegur stuðningur – vonast eftir fleirum
Stemningin í keppnishöllinni hefur einnig mikið að segja fyrir leikmenn. Viktor Gísli segir gaman að sjá marga Íslendinga á leikjunum, ekki síst í gær. Hann vonast eftir ennþá fleirum þegar á mótið líður en vitað var að amk einn flugvélafarmur með Íslendinga kom til Zagreb í dag.
„Ég vona að sem flestir af þeim sem eru að velkjast í vafa um að láta slag standa komi út. Það er einstök skemmtun að mæta á stórmót. Við erum þakklátir fyrir allan stuðning sem við fáum,“ segir Viktor Gísli sem er að taka þátt í sínu sjötta stórmóti í röð.
Leyfir sér að njóta augnabliksins
Áhorfendur sungu nafn Viktors Gísla hvað eftir annað í keppnishöllinni í gær og í fleiri leikjum íslenska landsliðsins til þessa. Spurður hvort hann taki eftir þessu og þá hvort það virki sem hvatning segir Viktor Gísli það svo sannarlega vera.
„Þegar maður hefur náð flottum vörslum þá leyfir maður sér aðeins að njóta augnabliksins. Það er fyrst og fremst geggjuð upplifun,“ segir Viktor Gísli Hallgrímsson landsliðsmarkvörður.
Lengra viðtal við Viktor Gísla er að finna í myndskeiði hér fyrir ofan.