Íslendingaliðið IFK Kristianstad tapaði þræðinum í sóknarleik sínum í síðari hálfleik í dag þegar þegar það mætti Sävehofn í Partille í dag. Eftir að hafa verið fimm mörkum yfir í hálfleik, 15:10, og í góðum málum þá féll leikmönnum Kristianstad allur ketill í eld í þeim síðari með þeim afleiðingum að leikmenn Sävehof gengu á lagið unnu leikinn með tveggja marka mun, 27:25.
Teitur Örn Einarsson var þriðji markahæsti leikmaður Kristianstad í leiknum með fimm mörk í átta skotum. Einnig átti hann fjórar stoðsendingar. Ólafur Andrés Guðmundsson náði sér ekki á strik og átti aðeins eitt markskot sem geigaði. Þá var honum einu sinni vísað af leikvelli í tvær mínútur.
Eftir að hafa verið fimm mörkum yfir, 15:10, í hálfleik þá var staðan orðin jöfn, 18:18, þegar síðari hálfleikur var hálfnaður. Eftir það náðu leikmenn Sävehof yfirhöndina og voru með fjögurra mark forystu þegar munurinn var mestur.
Staðan í sænsku úrvalsdeildinni:
Malmö 27(17), Ystads IF 27(18), Sävehof 24(18), Alingsås 23(18), Skövde 21(18), Lugi 21(18), Kristianstad 20(18), IFK Ystads 17(18), Hallby 16(18), Önnereds 12(16), Guif 12(16), Redbergslid 11(17), Varberg 11(18), Helsingborg 10(16), Aranäs 10(17).