- Auglýsing -
- Auglýsing -

Spá fyrir Grill66-deild karla: Hnífjöfn keppni HK og Víkings er framundan

Lærisveinar Sebastians Alexanderssonar í HK þykja líklegir til þess að vinna Grill66-deild karla þegar upp verður staðið að vetri liðnum. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson

Verði niðurstaðan af keppni tímabilsins sem framundan er í Grill66-deild karla eitthvað í takti við niðurstöðu af spá vina og velunnara handbolta.is verður kapphlaup HK og Víkings um efsta sætið æsilegt. Munurinn á liðunum tveimur í spánni gat ekki verið minni en raun varð á. Aðeins skildi eitt stig liðin að þegar atkvæði ríflega tugs seðla höfðu verið talin saman.


Fjórir af fimm leikjum fyrstu umferðar Grill66-deildar karla verða háðir í kvöld. Fjögur efstu liðin samkvæmt spánni verða í eldlínunni og m.a. mætast Þór Akureyri og Fjölni í upphafsleik deildarinnar í Höllinni á Akureyri klukkan 17.30.

Ekkert hik

HK og Víkingur féllu úr Olísdeildinni í vor eftir eins árs veru. Ekkert hik er á þjálfurum og leikmönnum liðanna. Bæði ætla sér upp í deildina á nýjan leik. Víst er að fleiri gera tilkall til þess að blanda sér í toppbaráttuna.


HK hefur með einni undantekningu haldið öllum leikmönnum sínum frá síðasta keppnistímabili.

Aðeins fleiri breytingar hafa orðið hjá Víkingum sem telja sig ekki vera með lakara lið en í fyrra og mun sterkara en leiktíðina 2020/2021 sem lauk ekki fyrr en um mitt sumar að loknum sviftingum sem leiddu til þess að Víkingar öðluðust sæti í Olísdeildinni þegar komið var fram undir verslunarmannahelgi.

Færri og fleiri breytingar

Þórsarar verða síst með lakara lið en í fyrra. Mannskapurinn er nánast sá sami og sannarlega reynslunni ríkari undir stjórn Norður Makedóníumannsins þrautreynda, Stevce Alusovski.


Talsverðar breytingar hafa orðið hjá Fjölni frá því í vor. Leikmenn réru á ný mið, jafnt innanlands sem utan auk þess sem þjálfaraskipti urðu í sumar. Sverrir Eyjólfsson, fyrrverandi leikmaður Stjörnunnar, er maðurinn í brúnni í Dalhúsum.

Óskrifað blað

Kórdrengir eru óskrifað blað eins og í fyrra. Önnur lið deildarinnar, fimm að tölu er ungmennalið félaga í Olísdeildinni.
Efsta lið Grill66-deildar í vor tekur sæti í Olísdeildinni leiktíðina 2023/24. Fjögur taka sæti í umspil þar sem sigurliðið fer einnig upp í Olísdeildina eftirsóttu.


Niðurstaða spárinnar:
1. HK.
2. Víkingur.
3. Þór Ak.
4. Fjölnir.
5. Haukar U.
6. Valur U.
7. Selfoss U.
8. Kórdrengir.
9. Fram U.
10. KA U.


Hörður vann Grill66-deild karla í vor sem leið og ÍR-ingar fylgdu þeim eftir upp í Olísdeild eftir að hafa staðið sig liða best í umspili.


1. umferð Grill66-deildar karla.
Föstudagur:
Höllin Ak.: Þór – Fjölnir, kl. 17.30
Kórinn: HK – Kórdrengir, kl. 19.30.
Safamýri: Víkingur – Selfoss U, kl. 20.
Úlfarsárdalur: Fram U – KA U, kl. 20.
Laugardagur:
Ásvellir: Haukar U – Valur U, kl. 16.


Leikir annarrar umferðar fara fram föstudaginn 30. september og sunnudaginn 2. október.


Leikjadagskrá Grill66-deildanna.

handbolti.is nýtur ekki opin­bers rekstr­­ar­­stuðn­­ings.
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -