- Auglýsing -
Gripið hefur verið til þess ráðs að seinka um þrjár stundir að flauta til leiks ÍBV og Harðar í íþróttamiðstöðinni í Vestmannaeyjum á morgun. Til stóð að látið yrði til skarar skríða klukkan 13 en samkvæmt tilkynningu frá mótanefnd HSÍ verður beðið til klukkan 16. Vonir standa til þess að þá verði leikmenn beggja liða tilbúnir í slaginn.
Ástæðan seinkunarinnar mun vera spá um vaxandi ölduhæð og þá væntanlega í Landeyjarhöfn þótt það komi hvergi fram í stuttri og laggóðri tilkynningu mótanefndar. Spár um vaxandi ölduhæð hafa skotið mönnum slíkan skelk í bringu að ferðir með Herjólfi í fyrramálið hafa verið lagðar af. Af þeim sökum verða leikmenn Harðar að seinka brottför sinni til Vestmannaeyja að ógleymdum dómurunum sem eru ekki síður nauðsynlegir en leikmenn liðanna.
Viðureign ÍBV og Harðar er síðasti leikur 1. umferðar. Leiknum var slegið á frest á sínum tíma vegna þátttöku ÍBV-liðsins í Evrópubikarkeppninni nærri þeim degi sem til stóð að Harðarmenn spreyttu sig gegn ÍBV snemma í september.
Að loknum leiknum á morgun hafa liðin í Olísdeild karla látið til sín taka fjórum sinnum, hvert og eitt.
Staðan í Olísdeild karla og næstu leikir.
- Auglýsing -