Spænska liðið Conservas Orbe Zendal Bm Porrino vann Hazena Kynzvart frá Tékklandi, 31:28, í Porrino á Spáni í gær í fyrri viðureign liðanna í undanúrslitum Evrópubikarkeppni kvenna í handknattleik. Eins og fram kom í gær tapaði Valur fyrir MSK IUVENTA Michalovce í Slóvakíu í gær, 25:23, hinni viðureign undanúrslita einnig í fyrri hluta undanúrslita.
Síðari leikir undanúrslita fara fram um næstu helgi. Hazena Kynzvart tekur á móti Conservas Orbe Zendal Bm Porrino í Cheb í Tékklandi á laugardaginn. Hazena Kynzvart vann Hauka í átta liða úrslitum keppninnar.
Daginn eftir mætast Valur og slóvakísku meistararnir MSK IUVENTA Michalovc í N1-höllinni á Hlíðarenda. Flautað verður til leiks klukkan 17.30.
Rétt er að hvetja handknattleiksáhugafólk til þess að fjölmenna á Hlíðarenda á sunnudaginn og styðja Valsliðið til sigurs. Íslenskt kvennalið hefur aldrei leikið til úrslita í Evrópukeppni félagsliða.