- Auglýsing -
- Auglýsing -

Spámaður vikunnar – iðnaður, sjómenn, læðan, lambið gráa, þunnt loft

Vafalaust verður hart tekist á þegar Fram og FH mætast í Framhúsinu í kvöld. Mynd/ J.L.Long
- Auglýsing -

Spámaður vikunnar er fastur liður að morgni þess dags sem umferð hefst í Olísdeildum karla og kvenna.

Í kvöld hefst fjórða umferð Olísdeildar karla með einum leik, þrír leikir fara fram annað kvöld og tveir á laugardaginn.

Rúnar Sigtryggsson er spámaður fjórðu umferðar Olísdeildar karla. Rúnar er þrautreyndur handknattleiksmaður og þjálfari. Hann lék með Þór Akureyri, Val, Víkingi, Haukum og Akureyri handboltafélagi hér heima en einnig með félagsliðum í Þýskalandi og á Spáni. Rúnar hefur þjálfað félagslið í efstu deild hér á landi og í tveimur efstu deildum Þýskalands. Hann lét af störfum hjá Stjörnunni í vor er nú þjálfari U16 ára landsliðs Íslands. Rúnar lék um árabil með íslenska landsliðinu m.a. á HM, EM og á Ólympíuleikum.

Rúnar er spámaður vikunnar

Rúnar Sigtryggsson.

Grótta – Afturelding, fimmtudagur kl. 19.30

Á pappírunum má segja að varamannabekkur Aftureldingar sé betur mannaður en byrjunarlið Gróttu og þó að forföll séu hjá Mosfellingum ætti spilamennska Gróttu í upphafi móts að vera þeim víti til varnaðar. Því reikna ég með engu vanmati og útisigri í þessum leik. Hjá Gróttu verður þetta spurning um að halda baráttuneistanum við og hraða leiksins niðri.

Haukar – Valur, föstudagur kl. 19.30

Þetta er stórleikur umferðarinnar, þegar tvö best mönnuðu lið landsins mætast. Verður fróðlegt að sjá hvort nær yfirhöndinni, yfirvegaður leikur Hauka eða power-handbolti Valsmanna, sem þeir hafa að vísu ekki náð að sýna stöðugleika í fram að þessu. Varnarleikur liðanna byggist upp á 6/0, en Haukavörnin mun þéttari en hin agressíva vörn Vals, þar sem þeir hafa meiri hæð. Í sóknarleiknum hafa Valsmenn fleiri leikmenn sem geta unnið einvígi í stöðunni 1 á 1, en hjá Haukum er það nánast bara Læðan [Atli Már Báruson] sem hefur sýnt það fram að þessu. Valsmenn fengu líka rassskellingu í síðustu umferð og þurfa að svara fyrir sig inni á vellinum og því reikna ég með sigri þeirra.

Stjarnan – KA, föstudagur kl. 19.30

KA hefur farið mun betur af stað en Stjarnan og safnað fleiri stigum en í þessum leik er komið að fyrsta sigri Stjörnunnar. Þeir eru með meiri gæði í liðinu og þurfa sigurinn eftir erfiða byrjun, þar sem flugeldarnir fóru ekki alveg á loft. Á meðan KA er þegar komið með 4 stig og er taplaust og hungrið eftir sigri verður því ef til vill ekki nægjanlegt eftir 6 tíma rútuferð til þess að ógna Stjörnunni að þessu sinni.

Selfoss – FH, föstudagur kl. 19.30

Frammistaða beggja liða á vellinum er eitthvað undir væntingum fram að þessu. Bæði lið hafa þó náð í stig og eru um miðja deild. En ef einhver veit hvernig stoppa á FH er það væntanlega núverandi þjálfari Selfoss. Að sama skapi er lið FH nánast óbreytt frá því að hann var þar við stjórnvölinn og leikmönnum FH langar örugglega að launa honum lambið gráa, fyrir þrekæfingarnar, löngu vídeófundina o.s.frv. Þetta verður væntanlega stál í stál, en vitneskja Selfyssinga um veikleika FH-inga mun tryggja þeim sigurinn í þessum leik.

Þór – ÍBV, laugardagur kl. 15

Þrátt fyrir að ÍBV muni eiga að baki lengsta ferðalag sem Olísdeildin bíður upp á, þá munu þeir fara með sigur af hólmi fyrir norðan. Þór náði að vísu í sín fyrstu stig í síðustu umferð á meðan ÍBV valtaði yfir sjómennina frá Hlíðarenda á sama tíma. Það sem gæti komið í veg fyrir sigur Eyjamanna væri ef Þór næði að spila sinn stálheiðarlega iðnaðarhandbolta, með löngum sóknum sem enduðu með skotum og næðu að koma sér í vörnina þar sem þeir hafa staðið vel hingað til og fengið á sig næst fæst mörk allra liða í deildinni.

Fram – ÍR, laugardagur kl. 17

Botnslagur umferðarinnar. Eftir þrjár umferðir er loftið þegar orðið þunnt fyrir ÍR-inga og engin reiknar með að þeir nái í stig á næstunni miðað við frammistöðuna hingað til. Þannig er öll pressan á Frömurum sem þegar hafa misst 2 stig til liðs sem spáð var fyrir neðan þá og mega því illa við að gera það aftur strax í 4. umferð. En að því sögðu reikna ég með sigri Framara, þar sem frammistaða þeirra hefur verið mun meira sannfærandi í fyrstu þremur umferðum mótsins, en drengjanna úr efri byggðum Reykjavíkur.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -