- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Spámaður vikunnar – Sýður á keipum

Margt bendir til að vikur geti liðið þar til Íslandsmótinu í handknattleik karla og kvenna hefst aftur. Mynd/ J.L.Long
- Auglýsing -

Spámaður vikunnar er nýr liður sem handbolti.is hleypir nú af stokkunum þegar önnur umferð Olísdeildar karla hefst. Framvegis verður þetta fastur liður að morgni þess dags sem umferð hefst í Olísdeildum karla og kvenna.

Davíð Már Kristinsson, þjálfari yngri flokka hjá Víkingi, ríður á vaðið og spáir í leiki annarrar umferðar Olísdeildar karla. Davíð Már hefur árum saman lifað og hrærst í kringum handboltann og fylgist grannt með kappleikjum hér heima og að heiman.

Davíð Már er spámaður vikunnar

Davíð Már Kristinsson

Þór AK – FH, fimmtudagur klukkan 19

Þórsarar stóðu sig vel í Mosfellsbænum í 1. umferð og voru nálægt því að fá eitthvað út úr þeim leik. Vonandi fyrir þá gefur það ekki fölsk fyrirheit uppá framhaldið. Ætli Þórsarar sé að fá eitthvað út úr leikjum þurfa þeir að fá 16-20 bolta varða, spila góða vörn og langar sóknir og hægja á leiknum eins og nokkur kostur er. Semji þeir fljótlega við örfhenta skyttu og fái upp stemmingu á heimavellinum gætu þeir kroppað í nokkur stig á Akureyri.

FH-ingar spiluðu á löngum köflum mjög vel á móti Val og sérstaklega gaman að sjá Egil Magnússon koma greinilega ágætlega undan sumri. Ásbjörn sýndi það enn og aftur afhverju hann er einn af allra bestu mönnum deildarinnar og Phil Döhler gæti endað í lok tímabils með hæsta prósentuhlutfallið í markvörslunni.

FH fara norður yfir heiðar og sigra 22:30 fyrir FH. Jakob Martin og Leonharð markahæstir fyrir FH og Ihor hjá Þór.


Grótta – Stjarnan, fimmtudagur klukkan 19.30

Lærisveinar Arnars Daða og Max komu einhverjum að óvörum með því að gefa Haukunum hörkuspennandi og hnífjafnan leik og það án tveggja lykilmanna í þeim Daníel Griffin og Jóhann Reyni. Annar heimaleikur hjá þeim og verður áhugavert að sjá hvort þetta unga og viljuga lið nær að tengja yfir í aðra góða frammistöðu. 

Stjarnan klaufar að fá ekki neitt út úr Selfoss leiknum. Þeir hafa verslað vel inn í sumar og hópurinn þeirra er orðinn mjög áhugaverður og breiður ásamt því að vera vel jafnvægisstilltur af ungum og efnilegum og eldri og reynslumeiri.

Stjarnan sigra 23:28. Andri Þór markahæstur hjá Gróttu og Tandri hjá Stjörnunni.


Fram – Afturelding, fimmtudagur klukkan 19.30

Þjálfarateymi Fram þeir Sebastian og Guðfinnur hafa væntanlega verið með böggum hildar yfir sóknarleik sinna manna á móti KA sem var allskostar ekki góður. Líklega hafa þeir lítið annað æft en uppstilltan sóknarleik á æfingum eftir KA leikinn.
Framarar mega alls ekki við því ef bæði Þorgrímur og Breki eru ekki að finna sig. Ef svo er við lýði munu þeir ekki vinna marga leiki. Andri Rúnarsson heillaði mig á köflum á móti KA. Snarpur og skilvirkur með góðar sprengjur í báðar áttir.

Í Mosfellsbæ hafa ekki verið neinir dagar víns og rósa eftir að Birkir og Guðmundur Árni helltust úr lestinni rétt fyrir mót vegna meiðsla. 250 mörk frá því í fyrra farin á einu bretti úr liðinu. Gunnar Magnússon ekki öfundsverður að þurfa að gjörbreyta leikskipulaginu. Það gladdi þó augað að sjá ungan leikmann nýgenginn uppúr 3. flokki, Þorstein Leó grípa tækifærið og skora 5 mörk í fyrsta leik. Hann er með öðruvísi hreyfingar, holningu og stíl en getur svo sannarlega lúðrað á markið og er með mikla hæð.

Spái jafntefli. 25:25. Þorgrímur markahæstur hjá Fram og Bergvin hjá Aftureldingu.


Valur – ÍR, föstudagur klukkan 17.30

Kiddi Björgúlfs og co gátu gengið hnarreistir frá leik sínum við ÍBV. Það er vitað að aðstoðarþjálfarinn Andri Heimir mun vera leiðtoginn í leikmannahópnum hjá þeim. Ekki bara varnarlega og sóknarlega heldur líka við að brýna ungu mennina. Sveinn Brynjar hefur verið kraftmikill og ólseigur síðan í 6. flokki og frábært fyrir leikmenn eins og Gunnar Johnsen, Hrannar og og Úlf að fá mikinn spiltíma. Það gæti vel farið svo að þeir vinni réttu leikina og náð 10. sæti

Valsmenn litu vel út á móti FH og Magnús Óli gæti vel gert tilkall til besta leikmannsins næsta vor. Róbert Aron lítur út fyrir að vera í sínu besta líkamlega formi og ekki minnkar breiddin þarna fyrir utan með tilkomu Tuma. Þeir eru með mestu breiddina í deildinni. Verður fróðlegt svo að fylgjast með hvernig markvarslan mun koma út hjá Val í næstu leikjum.

Valur vinnur 37:27. Vignir markahæstur hjá Val og Andri Heimir hjá ÍR.

Selfoss – KA, föstudagur klukkan 19.30

Frábær sigur hjá Selfossi í 1. umferð og verður gaman að sjá hvort Guðmundur Hólmar fylgir eftir frábærri frammistöðu í fyrsta leik. Örugglega margir sem héldu að hann væri ryðgaður sóknarlega eftir að hafa aðallega spilað vörn síðustu ár. Vilius Rasimax lítur út fyrir að hafa verið happafengur og gaman að sjá Daníel Karl nýta tækifærið.

Verður gaman að sjá hvort að Hergeiri Gríms tekst að tosa stórt þristapar KA mikið sundur og hvort að losi eitthvað um Atla á línunni ef að það verður mikið stigið út í Guðmund Hólmar

KA menn hafa örugglega reynt að láta Ólaf Gústafs ná sér í meira súrefni í æfingavikunni svo pumpan haldi lengur. Þegar hann mun þreytast þá þurfa Patrekur og Sigþór að skila framlagi svo þetta sé ekki bara hægri vængurinn sem er reyndar einn sá besti á landinu
Satchwell virkar sem fínn markmaður og Áki á eftir að verða einn af markahæstu leikmönnum mótsins. Andri Snær mun skoða línurnar í Iðu vel fyrir leik og það verður ekki dæmt á hann fyrir að stíga útaf vellinum eins og gerðist 2x í síðasta leik. Raggi Njáls fær ódýrt rautt spjald.

Selfoss vinnur 28:25. Árni Bragi markahæstur hjá KA og Atli Ævar hjá Selfoss.


Haukar – ÍBV, laugardagur klukkan 17.30

Alltaf þegar þessir fjendur mætast þá sýður á keipum. Aron Kristjáns þarf ekkert að mótivera sína menn neitt sérstaklega eftir síðasta leik. Á Ásvöllum hefur örugglega verið skerpt og brýnt mikið á hlutum eftir Gróttu leikinn. Nokkuð ljós að Atli Báru og Tjörvi muna ekki komast hvorugir á blað annan leikinn í röð. 3 skot á rammann frá Adam Baumruk í heilum leik er líka óásættanlegt.

Hákon Daði fullur sjálfstraust eftir mörkin 13 og hann mun gera harða atlögu að markakóngstitlinum með mörk af punktinum, hraðaupphlaupum og horni. Það er erfitt fyrir Sigtrygg og Ásgeir að fylla í skó Sigurbergs og Donna en það reynir á þá að skila framlagi í öllum leikjum og sýna stöðugleika. Erlingur og Kiddi hafa nú áður bætt unga menn og ég hef enga trú á öðru en að það verði raunin með þá líka.

Haukar vinna 31:29. Hákon Daði markahæstur hjá ÍBV og Adam hjá Haukum.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -