Á síðustu dögum hefur nokkrum þjálfurum verið gert að axla sín skinn eftir skamman tíma í starfi. Taumurinn sem þeim var gefinn var stuttur og þolinmæði stjórnenda félaganna vægt til orða tekið af skornum skammti.
Ian Marko Fog þjálfari danska meistaraliðsins var sagt upp eftir tvo mánuði og fjórar kappleiki, Kim Rasmussen fór sömu leið hjá Rapid í Búkarest og Slavko Goluža var gert að hirða hatt sinn og staf hjá RK Zagreb eftir 10 mánuði í starfi, aðeins fáeinum vikum eftir að starfssamningurinn var framlengdur til eins árs. Dæmin eru fleiri frá síðustu dögum.
Þurfti ekki að mæta daginn eftir
Stysta tauminn fékk Grikkinn Alexandros Alvanos. Hann var rekinn úr starfi í fyrradag eftir að hafa stýrt AEK Aþenu í aðeins einum leik. Alvanos, sem er einn þekktasti handknattleiksmaður Grikkja á síðari árum, tók við þjálfun AEK í sumar. Eftir tap fyrir höfuðandstæðingnum, Olympiakos, í meistarakeppninni í vikunni þurfti Alvanos hvorki að mæta til vinnu daginn eftir né framvegis
Hinn sjóaði serbneski þjálfari, Dragan Djukic, hefur verið ráðinn í stað Alvanos.
Stamatis Papastamatis forseti gríska meistaraliðsins AEK Aþenu er ekkert lamb að leika við, ekki síst þegar hans menn tapa fyrir Olympiakos eins og neðangreind frétt lýsir ágætlega.