„Ég er mjög spenntur fyrir því að vinna með Arnari og leikmönnum kvennalandsliðsins,“ segir Óskar Bjarni Óskarsson handknattleiksþjálfari við handbolta.is. Fyrir helgina var tilkynnt að Óskar verði aðstoðarþjálfari kvennalandsliðsins á komandi leiktíð.
„Fyrir dyrum standa talsverðar breytingar á landsliðshópnum. Nokkrir yngri leikmenn eru að taka við og koma inn í stærri hlutverk í framhaldi þess að nokkrir eldri leikmenn eru hættir eða eru í fæðingarorlofi. Ég hlakka til komandi verkefna,“ segir Óskar Bjarni.
Breytingar í aðsigi
„Við munum halda áfram að byggja ofan á það sem vel hefur verið gert hjá landsliðinu á undanförnum árum en um leið hleypa yngri leikmönnum að borðinu. Ég geri ráð fyrir nokkrum breytingum,“ segir Óskar Bjarni og nefnir sérstaklega 2004 landsliðið sem náði afar góðum árangri á HM 18 og 20 ára á sínum tíma. Í þeim hóp sé efniviður sem hafi verið að koma inn í landsliðið og nokkrar þegar í stóru hlutverki, t.d. Elín Klara Þorkelsdóttir.
Stutt í fyrsta leik
Fyrsti leikur kvennalandsliðsins á keppnistímabilinu verður vináttuleikur við Dani í Frederikshavn 20. september. Eftir það taka við tveir leikir í undankeppni EM2026 um miðjan október. Stóra verkefni vetrarins verður þátttaka á heimsmeistaramótinu í Þýskalandi og Hollandi frá og með 26. nóvember. Undirbúningur hefst upp úr miðjum nóvember.
Hjá Val er dagvinnan
Eftir að Óskar Bjarni hætti þjálfun karlaliðs Vals í vor tók hann að sér þjálfun barna- og unglingaflokka hjá félaginu. Einnig hefur hann verið í þjálfarateymi A-landsliðsins undanfarin ár.
„Ég er fyrst og fremst þjálfari yngri flokka hjá Val um þessar mundir. Hlutverk sem ég hef mikla ánægju af, vera á gólfinu og leiðbeina ungviðinu. Það er dagvinnan, ef svo má segja. Hvernig þessu verður öllu púslað saman verð ég að vinna í samvinnu við félag mitt, Val, sem hefur alltaf stutt vel við mig í þeim verkefnum sem ég hef tekið mér fyrir hendur,“ segir Óskar Bjarni Óskarsson þjálfari Vals og aðstoðarþjálfari kvennalandsliðsins í samtali við handbolta.is.