- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Spenntur fyrir því sem bíður mín í Þýskalandi

Daníel Þór Ingason hefur verið kallaður inn í EM-hópinn. Mynd/HSÍ
- Auglýsing -

Handknattleiksmaðurinn Daníel Þór Ingason horfir fram til næsta keppnistímabils með eftirvæntingu eftir að hann skrifaði á dögunum undir tveggja ára samning við þýska 1. deildarliðið Balingen- Weilstetten. Hann reiknar með að leika stórt hlutverk í varnarleik liðsins enda beinlínis ætlað að fylla skarð leikmanns sem er á förum í sumar og leikur nú burðarhlutverk í varnarleik liðsins. Þess utan segist Daníel Þór eiga von á að verða í nýju hlutverki í sóknarleiknum, hlutverki sem hann hefur ekki mikið glímt við á síðustu árum.

„Ég er mjög spenntur fyrir því sem bíður mín í Þýskalandi,“ sagði Daníel Þór þegar handbolta.is heyrði í honum hljóðið. „Ég fór vel yfir málið með þjálfara Balingen og íþróttastjóranum áður en ég skrifaði undir samninginn. Eins átti ég samtöl við Odd Gretarsson sem leikur með liðinu. Allir tala mjög vel um liðið og það sem bíður mín.“

Skref upp á við

„Ég tek skref upp á við frá Danmörku með þessum skiptum. Leikirnir eru fleiri í þýsku deildinni, æfingar fleiri og meira álag. Ég hlakka til að prófa mig í þýsku deildinni. Maður hefur svo sem horft til þess að komast í þýska boltann og spila á móti stóru liðunum,“ sagði Daníel Þór, sem er 25 ára gamall og kom til Ribe-Esbjerg í Danmörku fyrir tveimur árum frá Haukum.

Spennandi og nýtt hlutverk

„Mér er ætlað að taka við stóru hlutverki í vörninni af leikmanni sem er að fara annað eftir þetta tímabil. Síðan verð ég til halds og trausts í sóknarleiknum. Ég reikna með leika sem miðjumaður. Þjálfarinn sagðist sjá mig fyrir sér sem miðjumann og hann væri í raun að fá mig til liðsins í þeim tilgangi að leysa þá stöðu. Það er bara spennandi að takast á við eitthvað nýtt. Ég hef eiginlega ekkert leikið á miðjunni síðan ég var í yngri flokkunum. Þetta verður spennandi og skemmtilegt. Ég hef engar áhyggjur af þessu,“ sagði Daníel Þór.

Daníel Þór var valinn í íslenska landsliðið sem tók þátt í þremur síðustu leikjunum í undankeppni EM í lok apríl og í byrjun maí. Hann gerir sér vonir um að með því að leika í sterkari deild og vera í stærra hlutverki hjá félagsliðinu aukist möguleikar hans á að fá fleiri tækifæri með landsliðinu. „Það er markmiðið að festa sig betur í sessi með landsliðinu.“

Einn bikarleikur eftir

Daníel Þór hefur ekki alveg sagt skilið við herbúðir Ribe-Esbjerg í Danmörku þar sem hann hefur verið undanfarin tvö ár þótt liðið leiki ekki fleiri leiki í úvalsdeildinni á keppnistímabilinu. Framundan er bikarleikur við 2. deildarlið 8. júní. Danir hefja bikarkeppnina á vorin og ljúka henni veturinn eftir.

„Ég fer að pakka niður fljótlega og flyt örugglega mitt hafurtask til Þýskalands áður en ég kem heim í frí í sumar. Ég reikna með að hafa þann háttinn á,“ sagði Daníel Þór Ingason handknattleiksmaður í samtali við handbolta.is í dag.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -