- Auglýsing -
- Auglýsing -

Spiluðu eina sókn og eina vörn með of marga menn

Mynd/Eyjólfur Garðarsson
- Auglýsing -

„Við vorum að spila langt undir pari í fyrri hálfleik og Fjölnir með verðskuldaða forystu. Það var eins og við værum ekki mættir til leiks,“ sagði Jón Gunnlaugur Viggósson, þjálfari Víkings, eftir nauman sigur á Fjölni, 25:24, í Grill 66-deild karla í handknattleik í Víkinni í kvöld. Talsverður darraðadans var stigin á lokamínútum leiksins og hugsanlega að ekki séu öll kurl komin til grafar í þeim efnum.


„Ég hafði í raun áhyggur af þessum leik þar sem Egidijus er að koma til baka úr sex vikna meiðslum, Jóhannes hefur verið frá í töluverðan tíma og fleiri leikmenn meiddir og nokkur veikindi í hópnum líka. En ef þessir leikmenn þurfa bara hálfa æfingu og 30 mínútur í leik til að koma sér í gang aftur að þá lít ég björtum augum á framhaldið,“ sagði Jón Gunnlaugur ennfremur og bætti við.


„Við vorum klaufar á kafla í seinni hálfleik að klára ekki leikinn, höfðum nokkur tækifæri á að koma okkur í þriggja marka forystu. Í seinni hálfleik sýndi liðið frábæran karakter og í raun ótrúlegur munur á hálfleikum. Sverrir var með 50% markvörslu í seinni hálfleik og munaði gríðarlega um það ásamt því að vörnin small. Þetta voru tvö stór og frábær stig í toppbaráttunni.“

Uppákoma í lokin

Uppákoma varð þegar rúmlega mínúta var til leiksloka þegar kom í ljós að Víkingar voru einum manni of margir inni á leikvellinum. Sú staðreynd fór framhjá dómurnum og eftirlitsmanni leiksins og virtist enginn kveikja á perunni fyrri en Guðmundur Rúnar Guðmundsson, þjálfari Fjölnis, rak augun í að ekki var allt með felldu og gerði eftirlitsdómara viðvart. Um það sem gerðist í lokin hafði Jón Gunnlaugur þetta að segja:


„Við stillum upp í sókn þegar um mínúta var eftir af leiknum. Rétt áður en miðjan var flautuð á kallar leikmaður á mig að það vanti línumanninn inn á. Ég var nú ekki lengi að setja línumanninn inn á og spiluðum við þessa sókn frábærlega þar sem við fengum dauðafæri sem við klikkuðum því miður úr.“

Þjálfari Fjölnis benti á mistökin


„Fjölnir fór í sókn í kjölfarið og tapaði boltanum í innkast. Það var ekki fyrr en að Guðmundur, þjálfari Fjölnis, kallaði á dómarana að Víkingur sé með of marga leikmenn inn á að eftirlitsdómari stöðvaði leikinn.“

Hvort liðið átti boltann?

„Þannig að við lékum í raun heila sókn og heila vörn með aukamann án þess að nokkur maður í húsinu tæki eftir því. Ég hélt reyndar að Arnar Gauti hafi óvart skipt sér inn á í lokavörninni þegar Sverrir markmaður fór einnig á völlinn. Ég reif því aðeins í Gauta og spurði hvern fjandann hann væri að gera inn á. Reikistefnan snérist svo í raun um hvort Víkingur eða Fjölnir ættu boltann og ég fékk tvær mínútur fyrir að æsa mig svolítið. En boltinn var ekki í leik þegar eftirlitsdómari stöðvaði leikinn og því held ég að það hafi ekki verið hægt að dæma hann af okkur,“ sagði Jón Gunnlaugur Viggósson í samtali við handbolta.is eftir leikinn í Víkinni í kvöld.

Staðan í Grill 66-deild karla.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -