- Auglýsing -
- Auglýsing -

Spiluðum ótrúlega vel

Elvar Örn Jónsson í þann mund að skora eitt fimm marka sinn í kvöld. Mynd/Guðmundur Lúðvíksson
- Auglýsing -

„Við spiluðum alveg ótrúlega vel,“ sagði Elvar Örn Jónsson, landsliðsmaður í handknattleik glaður í bragði í samtali við handbolta.is eftir stórsigur íslenska landsliðsins á Litháum, 36:20, í Laugardalshöll í kvöld í undankeppni EM.


„Við keyrðum bara á þá frá upphafi til enda og nýttum okkur vel að þeir hafa ekki jafnmikla breidd í leikmannahópnum og við. Það var alveg sama hver kom inn í liðið okkar, alltaf héldum við uppi hraðanum og skipulaginu, jafnt í vörn sem sókn. Eins náðum við að halda dampi alveg til enda og vinna þannig sannfærandi,“ sagði Elvar Örn.


Elvar Örn sagði að rík áhersla hafi verið lögð á að koma böndum yfir miðjumanninn Aidenas Malasinkas. Það hafi tekist og þar með hafi vopnin svolítið verið slegin úr höndum Litháa. „Við vissum að hann væri algjör lykilmaður og náðum þrátt fyrir skamman undirbúning að loka alveg fyrir Malasinkas.“


Elvar sagði að stemningin í Höllinni hafi verið sérstök en menn hafi verið staðráðnir í að njóta þess að spila handbolta. „Sumir í liðinu hafa ekki leikið handbolta í margar vikur og óvíst hvenær þeir fá næst tækifæri til þess,“ sagði Elvar Örn sem er þó ekki einn þeirra sem hefur þurft að rifa seglin því nóg er að gera hjá danska úrvalsdeildarliðinu Skjern sem hann er á mála hjá.


„Síðustu tveir sólarhringar hafa verið sérstakir. Við innilokaðir á hóteli og því verið mikið saman en ekkert mátt fara út. Tíminn hefur styrkt hópinn að mínu mati. Stemningin er fín sem skein vonandi af okkur að þessu sinni,“ sagði Elvar Örn Jónsson, landsliðsmaður í handknattleik í samtali við handbolta.is í Laugardalshöll í kvöld.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -